

Valmynd
Ásthildur B Snorradóttir
Björk Alfreðsdóttir
Farið verður yfir skilgreiningar á færniþáttum/málþáttum sem einkenna þroska barna. Bent verður á hagnýtar lausnir til þess að mæta þörfum barna sem sýna frávik á þessum þáttum. Leitast verður við að gefa þátttakendum verkfæri og hugmyndir til þess að nota í daglegum aðstæðum í skólanum. Sérstaklega verður fjallað um skipulag í leikskólum, uppbyggingu málörvunarhópa og undirbúning fyrir lestur eftir skráningu með TRAS.
Sýnt hefur verið fram á að með því að beita aðferðum snemmtækrar íhlutunar er hægt að draga úr og jafnvel koma í veg fyrir námsörðugleika. Með því að skrá málþroska ungra barna í daglegum aðstæðum og skilgreina málþroskafrávik aukum við möguleika á því að vinna markvisst að því að styrkja málþroska út frá viðeigandi færniþáttum. Einnig hefur það áhrif á valdeflingu fyrir starfsfólk leikskólans að fá betri yfirsýn yfir verkfæri og hugmyndir til þess að styrkja mál- og félagsþroska ungra barna með viðeigandi íhlutun.
Námskeiðið er ætlað leikskólakennurum, grunnskólakennurum, þroskaþjálfum, talmeinafræðingum, sálfræðingum og sérkennurum. Einnig er námskeiðið opið öðru starfsfólki leikskólans sem hefur reynslu af því að vinna með kennurum og þeim sem hafa réttindi til þess að nota TRAS skráningarlistann.
Ásthildur Bj. Snorradóttir er með sérkennarapróf og próf í talmeinafræði frá Noregi. Hún er einnig með meistaragráðu með áherslu á talmeinafræði frá Bandaríkjunum. Hún hefur skrifað margar greinar um snemmtæka íhlutun og undirbúning fyrir lestur. Ásthildur hefur áratuga reynslu af talþjálfun barna og ráðgjöf. Hún er höfundur fjölda kennslugagna í málörvun og vinsælla barnabóka um Bínu bálreiðu. Einnig er hún meðhöfundur að skimunarprófinu; Leið til læsis, Tölum saman-málörvunarkerfi, Orðagulli, Ljáðu mér eyra- undirbúningur fyrir lestur, Íslenska málhljóðakassanum og handbókinni: Snemmtæk íhlutun í málörvun tveggja til þriggja ára barna. Ásthildur er sjálfstætt starfandi talmeinafræðingur og var ein af eigendum Talþjálfunar Reykjavíkur, hún er hluti af íslenska TRAS hópnum og hefur starfað sem faglegur ráðgjafi m.a. hjá Menntamálastofnun.
Björk Alfreðsdóttir er sérkennari. Hún lauk prófi í sérkennslufræðum /heyrnarkennari frá Statens Spesiallærerhögskole í Noregi. Björk er með B.Ed. í leikskólakennarafræðum og M.Ed. í sérkennslufræði og skóla margbreytileikans frá HÍ. Hún hefur langa reynslu af starfi sem sérkennari og ráðgjafi í leik- og grunnskólum. Björk er í íslenska TRAS hópnum sem þýddi og staðfærði TRAS skráningarlistann.