Staðnámskeið

Fjöláfalla- og tengslavandi hjá börnum upp að 10 ára aldri

Vantar þig aðstoð við nýskráningu inn á Mínar síður? Horfðu á leiðbeiningarmyndbandið!

Fös. 18. okt. kl. 11:00 - 15:00

4 klst.

Jóhanna Jóhannesdóttir

Endurmenntun Háskóla Íslands

Peningur 29.900 kr.
Snemmskráning til og með 8. október. Almennt verð 32.900 kr.
Námskeið

Mikilvægasta grunnþörf barns er að tengjast tilfinningaböndum við foreldra/umönnunaraðila. Í gegnum grunntengslin fær barnið þörfum sínum fyrir kærleika, öryggi og vernd mætt, án skilyrða. 
Tengslaröskun, tengslavandi og einkenni tengslavanda verður til eða þróast í gegnum misalvarlega vanrækslu á þessum grunnþörfum. Vandinn getur þróast og haft áhrif á allt nærumhverfi barnsins. Þekking og skilningur á fjöláfalla-og tengslavanda barnsins er grunnforsenda þess að hægt sé að ná til barnsins í því skyni að hafa jákvæð áhrif á líf þess.
Á námskeiðinu er fjallað um mikilvægi frumbernskunnar og forsendur barns sem glímir við vanda tengdan fjöláföllum og tengslum. Skoðað er hvernig hægt er að nálgast barnið af öryggi, út frá þekkingu, með kærleik og viðeigandi mörkum að leiðarljósi með það að markmiði að draga úr þeim einkennum sem barnið sýnir sem byggja á öryggisleysi og ótta.
 

Á námskeiðinu verður meðal annars fjallað um ákveðna tengslaeflandi hugmyndafræði og líkanið „Attachment and Resilience Based Model“ (Tengslamyndun, tilfinningastjórnun, færniþættir) sem auðveldar lykilaðilum barnsins að skyggnast á bak við tilfinningalegan óstöðugleika og erfiða hegðun barna upp að 10 ára aldri. Skoðað verður hvernig hægt er að setja hegðun barnsins í merkingarbært samhengi og bregðast við af öryggi, yfirvegun, rósemd og viðeigandi festu.

  • Skoðaðar verða leiðir sem geta nýst til að koma barninu til aðstoðar með vinnu sem beinist að miðtaugakerfinu og hvað þarf að hafa í huga áður en hægt er að gera kröfur á barn sem glímir við tengslavanda.
  • Á námskeiðinu er lögð áhersla á færni og tilfinningar lykilaðila sem þarf, líkt og barnið að upplifa öryggi í aðstæðum sínum. Skoðaðar verða leiðir sem snúa að ýmsum Self-Regulation aðferðum (sjálfsstjórnaraðferðum) ásamt öðrum hjálplegum björgum.
  • Að ná í eigin ró og geta „lánað“ hana til barns sem misst hefur stjórn á tilfinningum sínum er eitt mikilvægasta „verkfærið“. Með því að kynnast betur Co-Regulation (Sjálfsstjórn í gegnum annan einstakling) eflir sjálfsstjórnargetu barnsins sem fær þannig tækifæri til að þroskast og þróa tengsl og öryggi í félagslegum samskiptum.
  • ARC líkanið er gagnreynd aðferð sem byggir á tengsla-og áfallamiðuðum grunni. Aðferðin byggir einnig á mikilvægi kærleiksríkrar skuldbindingar í samskiptum við börn og ungmenni sem niðurstöður ákveðna heildarannsókna hafa verið og eru í síauknum mæli að leggja aukna áherslu á og leiða skýrar í ljós. 
    Hugtakið tengslavandi (Attachment Disorder). Hvað það merkir, hvernig það hefur þróast og hver áhrifin geta verið á daglegt líf, líðan, hegðun og þroska barna, allt frá frumbernsku og upp í unglingsárin.
  • Tengsla- og þrautseigjulíkanið (Attachment and Resilience Based Model). Líkanið er útskýrt stuttlega og hvernig það getur nýst lykilaðilum í nærumhverfi barnsins.
  • Miðtaugakerfið og áföll/vanræksla. Helstu fræðilegu áherslur fjöláfalla-og tengslavanda og hvaða aðferðir/nálganir eru taldar virka best í því skyni að ná til barnsins.
  • Fjallað verður um helstu styrkleika og hamlandi þætti hjá lykilaðilum almennt. Þætti sem aukið geta líkur eða dregið úr líkum á að barn með fjöláfalla-tengslavanda finni fyrir nauðsynlegu öryggi og stöðugleika hjá lykilaðilum.

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur eigi auðveldar með að „skyggnast á bak við‟ hér og nú hegðun barnsins:

  • Nái sem oftast að setja erfiða hegðun barnsins í merkingarbært samhengi sem eykur mjög líkur á að þörfum þess sé mætt á þroskavænlegan máta.
  • Geti sem oftast veitt barninu viðeigandi stuðning, öryggi, traust, festu og ramma sem eykur mjög líkur á að barnið nái að standa sig nógu vel („good enough“).
  • Geti sem oftast sýnt barninu kærleika, rósemd og yfirvegun í óstöðugum aðstæðum sem eykur mjög líkur á að barnið nái að ráða betur við tilfinningar sínar og hegðun.
  • Nái sem oftast að staldra við og íhuga hjá sjálfum sér þá þætti sem helst gætu stutt við eða hindrað að barnið upplifi sig öruggt í streituvekjandi aðstæðum.

Á námskeiðinu er fjallað um

  • Tengsla- og þrautseigjulíkanið ARC (Tengsl, sjálfsstjórn, færniþættir) og hvernig það getur nýst í daglegu starfi.
  • Þróun tengsla og mikilvægi öruggra tengsla og hinar ýmsu birtingarmyndir fjöláfalla-og tengslavanda/einkenni tengslavanda.
  • Áhrif fjöláfalla- og tengslavanda á heilaþroska og hvernig hann getur haft mismundi áhrif á þroskamöguleika barnsins.
  • Hvernig styrkleikar og hamlandi þættir hjá lykilaðilum geta haft áhrif á þroska barnsins og líðan.

Ávinningur þinn

  • Þú verður öruggari í að "lesa í hegðun" og færð aukna þekkingu á því hvernig þú getur orðið meðvitaðri um það hvenær og  hvernig þú þarft að bregðast áður en barnið missir stjórn á tilfinningum sínum.
  • Verður meðvitaðri um helstu styrkleika þína sem og hamlandi þætti sem aukið geta færni þína í að aðgreina betur eigin tilfinningar frá tilfinningum barnsins þegar það þarfnast ró þinnar og stuðnings.
  • Aukinn skilningur, hæfni og aðferð/nálgun sem gagnast við að draga úr álagi og streitu og auka þannig starfsánægju.
  • Aukið innsæi í eigin líðan og viðbrögð þegar þú mætir barni sem glímir við fjöláfalla-og tengslavanda. 
  • Aukinn skilningur á því hvernig fjöláföll/vanræksla hefur áhrif á miðtaugakerfi barnsins.

Fyrir hverja

Námskeiðið er ætlað öllu fagfólki sem starfar við leik- og grunnskóla, frístundaheimili, félagsþjónustu, barnavernd og heilsugæslu.

Nánar um kennara

Jóhanna Jóhannesdóttir er félagsráðgjafi, MA og fjölskyldufræðingur. Jóhanna hefur unnið með fjölskyldum og fósturfjölskyldum til fjölda ára hjá Barnavernd Reykjavíkur og hefur því mikla reynslu af handleiðslu við fósturforeldra sem og starfsmenn leik- og grunnskóla í málefnum barna og ungmenna sem glíma við fjöláfalla-og tengslavanda.
Auk þess að starfa einnig sjálfstætt við að handleiða fósturforeldra, foreldra og stofnanir er Jóhanna einnig meðferðaraðili hjá Píetasamtökunum.

Styrkur

Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.

Fjöláfalla- og tengslavandi hjá börnum upp að 10 ára aldri

Verð
29900