Staðnámskeið

Viðbrögð við netárás, undirbúningur og æfing

Aðeins 1 sæti laust

Vantar þig aðstoð við nýskráningu inn á Mínar síður? Horfðu á leiðbeiningarmyndbandið!

Þri. 8., fim. 10. og þri. 15. okt. kl. 13:00 - 16:00 (3x)

9 klst.

Ebenezer Þórarinn Böðvarsson

Endurmenntun Háskóla Íslands

Peningur 84.900 kr.
Snemmskráning til og með 28. september. Almennt verð 93.400 kr.
Námskeið

Á námskeiðinu munu þátttakendur öðlast skilning á því hvað fyrirtæki og stofnanir sem vilja auka seiglu og áfallaþol þurfa til að búa sig undir það að bregðast við alvarlegum atvikum eins og netárásum.
 

Þegar bregðast þarf við flóknum aðstæðum eins og alvarlegri netárás er mikilvægt að styðjast við góðar leiðbeiningar, skipulag og ákvarðanir sem stjórnendur hafa tekið yfirvegað á friðartímum. Góð áætlun er hagkvæmasta leiðin út úr erfiðum áföllum. Hún flýtir fyrir viðbragði, minnkar skaðann og verndar orðspor fyrirtækja og stofnana. Oft getur reynst flókið að útfæra áætlanir á einfaldan hátt.
 

Námskeiðið er í grunninn þríþætt: 

  1. Akademískt þar sem farið er yfir hvað fræðin segja að þurfi að vera til staðar.
  2. Praktískt þar sem bent er á hvað virkar, hvað ætti að forðast og önnur góð ráð byggð á reynslu leiðbeinanda.
  3. Raunsæ æfing sem reynir á efnið og býr til reynslu. 

 

Að lokum verður farið í gegnum borðprófsæfingu (e: table top exercise) þar sem þátttakendur takast á við trúverðuga stigmagnandi atburðarás sem reynir á ákvarðanatöku og samvinnu. Ekki er um að ræða próf heldur fara þátttakendur í sameiningu í gegnum æfinguna og rædd verða mismunandi viðbrögð og kostir þeirra og gallar metnir á hverju stigi árásarinnar.
 

Ávinningur þinn

  • Aukin skilningur á uppbyggingu, skipulagi og innihaldi neyðar- og viðbragðsáætlana.
  • Geta til að taka að þér umsjón með uppbyggingu og viðhaldi áætlunar um samfelldan rekstur og leikbóka.
  • Hefur tekið þátt í sviðsmyndaæfingu fyrir gagnagíslatöku þar sem reynt er á helstu þætti sem áætlunin nær til.

Fyrir hverja

Námskeiðið er ætlað atvikastjórum eða þeim sem bera ábyrgð á áætlun um samfelldan rekstur og viðbúnaði fyrirtækja og stofnana. Námskeiðið hentar sérstaklega starfsfólki fyrirtækja og stofnana sem þurfa að uppfylla lög og reglur sem kveða á um viðbúnaðarumgjörð s.s. nauðsynlegir og mikilvægir innviðir (NIS2) og fjármálafyrirtæki (DORA). Námskeiðið er ekki síður fyrir þá sem vilja bæta áfallaþol og auka viðnámsþrótt eða þurfa að vera undirbúnir undir alvarleg áföll af öðrum ástæðum.

Námskeiðið er ekki um tæknileg viðbrögð nema að litlu leyti. Þótt námskeiðið sé miðað að upplýsingatækniáföllum eiga grunnþættir þess við um öll alvarleg áföll þar sem hraði, gott skipulag og fumlaus samskipti skipta máli. 

Hvorki er gert ráð fyrir að þátttakendur búi yfir upplýsingatækniþekkingu né hafi reynslu af viðbúnaðarumgjörðum. 

Nánar um kennara

Ebenezer starfar sem stjórnandi ráðgjafateymis SYNDIS sem er leiðandi fyrirtæki í upplýsingaöryggi og netöryggi og veitir sérsniðna þjónustu og nýstárlegar öryggislausnir á heimsmarkaði.

Hann hefur yfir 20 ára reynslu í upplýsingaöryggi. Bæði sem ráðgjafi hjá Skýrr og SYNDIS og sem upplýsingaöryggisstjóri hjá BORGUN í 10 ár.

Hjá SYNDIS hefur hann einnig leitt rannsóknir og þróun á gagnlegum viðbragðsáætlunum og áætlunum um samfelldan rekstur og neyðaráætlunum þegar kemur að netöryggi.

Ebenezer er vottaður CBCI Business Continuity frá Business Continuity Institute.

Styrkur

Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.

Viðbrögð við netárás, undirbúningur og æfing

Verð
84900