Staðnámskeið

Mannát og menning

Vantar þig aðstoð við nýskráningu inn á Mínar síður? Horfðu á leiðbeiningarmyndbandið!

Þri. 29. okt. og 5. nóv. kl. 20:00 - 22:00 (2x)

4 klst.

Dagrún Ósk Jónsdóttir

Endurmenntun Háskóla Íslands

Peningur 22.900 kr.
Snemmskráning til og með 20. október. Almennt verð 25.200 kr.
Námskeið

ATH. Þetta er ekki matreiðslunámskeið!

Mannát er fyrirbæri sem vekur með okkur flestum óhug, það er tabú. Á sama tíma virðist það einnig vekja með okkur forvitni. Mannát og mannakjöt hefur nýlega verið vinsælt umfjöllunarefni í dægurmenningu samtímans og birst m.a. í skáldsögum, ljóðabókum, leikhúsi, ótal sjónvarpsþáttum og kvikmyndum.

Minnið um mannát er þó alls ekki nýtt og finnst meðal annars í goðsögum, þjóðsögum og ævintýrum. Í íslenskri gerð Öskubusku eru stjúpsystur hennar til að mynda saltaðar ofan í tunnur og svo étnar af stjúpmóðurinni og í eldri gerðum af sögunni um Rauðhettu gerir úlfurinn pylsur úr ömmunni og gefur Rauðhettu sem borðar ömmu sína með bestu lyst. Í íslenskum sögnum birtist mannát helst í trölla- og útilegumannasögum.

Mannát þekkist auðvitað einnig í raunveruleikanum, þó umdeilt sé hversu útbreitt það hafi verið í raun og veru. Gerð verður grein fyrir flokkun fræðifólks á mannáti sem byggir yfirleitt á því hver er étinn og af hverju. Sjónum verður einnig beint að því hvernig mannát hefur verið notað sem valdatæki og til að undirstrika illsku og ómennsku tiltekinna hópa í samfélaginu, bæði í fortíðinni og samtímanum.

Efnið verður matreitt á lifandi og skemmtilegan hátt, þar sem nemendur taka virkan þátt í umræðum í námskeiðinu.

Á námskeiðinu er fjallað um

  • Mannát í raunveruleikanum, flokkun þess og kenningar sem því tengjast.
  • Birtingarmyndir mannáts í goðsögum, sögnum, ævintýrum, flökkusögum í samtímanum og afþreyingarefni, bæði hérlendis og erlendis.

Ávinningur þinn

  • Að geta rætt um mannát út frá ólíkum sjónarhornum.
  • Að öðlast þekkingu á hvernig hugmyndir um mannát hafa verið notaðar í gegnum tíðina.
  • Að auka þekkingu á íslenskum þjóðsögum og ævintýrum.
  • Að efla menningarlæsi.
  • Að fá yfirsýn um áhugavert og skemmtilegt afþreyingarefni sem tengist mannáti á einn eða annan hátt.

Fyrir hverja

Námskeiðið hentar vel öllum þeim sem hafa áhuga á sögu og menningu, hegðun fólks, bókmenntum og þjóðfræði. Einnig þeim sem hafa sérstakan áhuga á því sem er svolítið óhugnanlegt og ógeðslegt.

Nánar um kennara

Dagrún Ósk Jónsdóttir er með doktorspróf í þjóðfræði og hefur m.a. rannsakað mannát með sérstakri áherslu á birtingarmynd þess í íslenskum þjóðsögum og ævintýrum. Dagrún hefur kennt við námsbraut í þjóðfræði við Háskóla Íslands frá árinu 2019.

Styrkur

Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.

Mannát og menning

Verð
22900