

Valmynd
Guðný Norðdahl Einarsdóttir
Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samkvæmt lögunum skal jafnlaunavottun byggjast á Jafnlaunastaðlinum ÍST 85.
Með innleiðingu hans geta fyrirtæki og stofnanir komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.
Námskeiðið er hluti af undirbúningsferli vegna innleiðingar jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012.
Áreiðanleg og málefnalega rökstudd aðferð við flokkun starfa er lykilatriði í því að vel takist að ná markmiðum um launajafnrétti. Fyrirtæki og stofnanir sem vilja fá jafnlaunavottun á grundvelli staðalsins verða að ákvarða þau viðmið sem lögð skulu til grundvallar flokkun starfa og í framhaldi af því að flokka öll störf samkvæmt þeim.
Á námskeiðinu er fjallað almennt um hugmyndafræðina að baki flokkun starfa, viðmiða og ólíkar aðferðir við starfaflokkun. Einnig er farið yfir verklag og ferli starfaflokkunar skref fyrir skref og hvað felst í þeirri vinnu. Þátttakendum er leiðbeint um flokkun starfa og fá þeir aðgang að verkfærum og líkönum sem þeir geta nýtt á sínum vinnustað.
Námskeiðið er ætlað forstöðumönnum, mannauðsstjórum, gæðastjórum og öðrum þeim sem ætlað er að stýra eða gegna ábyrgðarhlutverki við innleiðingu jafnlaunastaðalsins.
Guðný Einarsdóttir er sérfræðingur hjá kjara- og mannauðssýslu ríkisins í fjármála-og efnhagsráðuneytinu.