

Valmynd
Vantar þig aðstoð við nýskráningu inn á Mínar síður? Horfðu á leiðbeiningarmyndbandið!
Fim. 27. mars, þri. 1. og fim. 3. apríl, kl. 9:00 - 12:00 (3x)
Dagmar Sigurðardóttir
Hildur Georgsdóttir
Endurmenntun Háskóla Íslands
Á námskeiðinu er fjallað um helstu atriði laga um opinber innkaup og er námskeiðið því grundvallarnámskeið fyrir þá sem vinna við opinber innkaup eða tilboðsgerð í opinberum útboðum.
Á námskeiðinu verður m.a. skoðað hvaða hæfiskröfur má gera til fyrirtækja, hvað ber að hafa í tæknilýsingu og hvaða valforsendur eru leyfilegar þegar valið er á milli tilboða. Þá verða mismunandi innkaupaferlar kynntir og hvaða afleiðingar það getur haft fyrir opinberan aðila ef innkaup eru ekki í samræmi við lögin.
Lög um opinber innkaup nr. 120/2016 tóku gildi í lok október 2016 en þau innleiða tilskipun nr. 2014/24/EB um opinber innkaup. Umfjöllunin byggist á þessum réttarheimildum en gagnast einnig sérfræðingum sem vinna við opinber innkaup á sviði veitutilskipunar nr. 2014/25/EB.
Lög um opinber innkaup nr. 120/2016 gilda um kaup opinberra aðila á þjónustu, vörum og verkframkvæmdum. Þegar opinber innkaup ná tilteknum fjárhæðum ber opinberum aðilum að viðhafa gegnsætt ferli, gæta samkeppni og jafnræðis milli fyrirtækja. Öll útboð yfir viðmiðunarmörkum innanlands skulu auglýst á slóðinni utbodsvefur.is og þegar viðmiðunarmörkum á Evrópska efnahagssvæðinu er náð, ber að auglýsa innkaupin í rafrænum viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins (https://ted.europa.eu). Farið verður yfir úrskurði kærunefndar útboðsmála og dóma sem varpa ljósi á hvað ber að varast við framkvæmd opinberra innkaupa og tilboðsgerð.
Námskeiðið gagnast lögfræðingum og öðrum sérfræðingum hjá opinberum aðilum, bæði ríki og sveitarfélögum, sem koma að opinberum innkaupum.
Það er einnig gagnlegt fyrir lögfræðinga sem koma að kæru- eða dómsmálum á sviði opinberra innkaupa fyrir kærunefnd útboðsmála eða fyrir dómstólum.
Þá gagnast námskeiðið starfsmönnum fyrirtækja sem eru bjóðendur í opinberum útboðum, svo sem verkfræðingum og öðrum sérfræðingum.
Dagmar Sigurðardóttir er lögmaður og eigandi á lögfræðistofunni Lagastoð. Hún var sviðsstjóri lögfræðisviðs Ríkiskaupa 2013-2020 og hefur því yfirgripsmikla reynslu af opinberum innkaupum, útboðum og samningagerð. Hún hefur einnig starfað sem sérfræðingur á sviði almannavarna í dómsmálaráðuneytinu og var lögmaður Landhelgisgæslunnar um 12 ára skeið. Dagmar hefur tekið þátt í erlendu samstarfi um opinber innkaup, setið í starfshópi á vegum fjármálaráðuneytis sem vann að frumvarpi núgildandi laga um opinber innkaup og hefur haldið erindi, námskeið og fræðslufundi um opinber innkaup bæði erlendis og hérlendis t.a.m. hjá Endurmenntun, Stofnun stjórnsýslufræða, Lögmannafélagi Íslands og á vegum Ríkiskaupa. Dagmar lauk cand juris prófi frá HÍ 1994 og meistaranámi í sjávarútvegsfræðum frá lagadeild HÍ 2005. Hún hlaut lögmannsréttindi árið 2000.
Hildur Georgsdóttir er framkvæmdastjóri þjónustusviðs Framkvæmdasýslunnar-Ríkiseigna (FSRE). Þar áður gegndi hún stöðu yfirlögfræðings FSRE. Hildur starfaði sem lögmaður hjá Ríkiskaupum á árunum 2012-2020. Þar áður var hún löglærður fulltrúi hjá ríkislögreglustjóra. Hildur hefur tekið þátt í erlendu samstarfi um opinber innkaup, komið að gerð frumvarps til laga um opinber innkaup, sótt fjölda mörg námskeið erlendis um opinber innkaup og hefur sinnt kennslu og haldið fræðslufundi um opinber innkaup hér á landi. Hildur sinnir starfi stundakennara við lagadeild Háskólans í Reykjavík og kennir þar opinber innkaup í meistaranáminu. Hildur hefur jafnframt sinnt prófdæmingu í meistararitgerðum við lagadeild HÍ og Háskólans á Bifröst. Hildur lauk meistaraprófi í lögfræði frá lagadeild Háskólans í Reykjavík í janúar 2011. Hún hlaut lögmannsréttindi árið 2015.
Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.