Staðnámskeið

Eldfjöll, jöklar og allt í iðrum jarðar

Vantar þig aðstoð við nýskráningu inn á Mínar síður? Horfðu á leiðbeiningarmyndbandið!

Þri. 5. nóv. - 10. des. kl. 19:00 - 22:00 (5x) ATH. ekki er kennt 12. nóv.

15 klst.

Helga Kristín Torfadóttir

Endurmenntun Háskóla Íslands

Peningur 67.900 kr.
Snemmskráning til og með 26. október. Almennt verð 74.700 kr.
Námskeið

Jarðfræðileg málefni hafa verið ofarlega á baugi undanfarin misseri og umfjöllun um eldgos, jarðskjálfta og fleira hefur vakið forvitni margra landsmanna. Á þessu námskeiði er farið yfir grunnatriði í jarðfræði og byggð upp þekking á jarðfræði Íslands. Farið er yfir þau helstu jarðfræðilegu ferli sem tengjast innrænum og ytri öflum jarðar og jarðfræði Íslands eru gerð góð skil.

Innræn öfl snúast til dæmis um eldvirkni, jarðskjálfta, flekahreyfingar og helstu berggerðir sem koma þar við sögu. Með ytri öflum er átt við þá sýnilegu jarðfræði sem á sér stað á yfirborði jarðar, til dæmis jökla, rennandi vatn, setmyndun og hvernig landið okkar er mótað. Þegar farið hefur verið yfir helstu jarðfræðilegu ferli og hugtök er fjallað um jarðfræði og jarðsögu Íslands, frá upphafi til dagsins í dag. Að loknu námskeiði eiga nemendur að búa yfir kunnáttu til að geta kafað dýpra ofan í jarðfræðileg málefni á eigin vegum.

Hér er um að ræða kjörið námskeið fyrir forvitna á öllum aldri. Með hverju námskeiðsgjaldi fylgir því frítt sæti fyrir eitt ungmenni undir 18 ára aldri.

Á námskeiðinu er fjallað um

  • Uppbyggingu jarðar og jarðskorpunnar, tegundir fleka, jarðskjálfta og dreifingu þeirra um jörðina.
  • Tegundir eldfjalla, mismunandi gerðir kviku, mismunandi gerðir eldgosa, helstu berggerðir og hringrás bergs.
  • Veðrun, rof og setmyndun ásamt landmótun út frá rennandi vatni, hafinu og jöklum.
  • Uppbyggingu og tegundir jökla og landmótun þeirra og farið yfir landslagið í kringum jökla.
  • Mótun Íslands og jarðfræði landsins. Eldstöðvakerfi og jökla Íslands og dreifingu þeirra. Helstu berggerðir og landmótanir sem við sjáum á Íslandi og af hverju. Hvernig er landslag Íslands mismunandi eftir landshlutum og hver er framtíð Íslands?

Ávinningur þinn

  • Að skilja helstu jarðfræðiferli og jarðfræðihugtök og öðlast þannig leiðarvísi til að geta lært um þau áfram á eigin vegum í frekari smáatriðum.
  • Að geta notað mismunandi jarðfræðiferli saman til að skilja eina heildarmynd.
  • Að geta lesið í landslag og greint stök landform og áttað sig á því hvernig það myndaðist og af hverju.
  • Að þekkja jarðfræði og jarðsögu Íslands.

Fyrir hverja

Námskeiðið er fyrir alla þá sem hafa áhuga á jarðfræði og vilja bæta við þekkingu sína eða rifja upp það sem þeir hafa lært áður, til dæmis til að skilja betur umfjöllun vísindamanna um jarðfræðilega atburði í fjölmiðlum. Námskeiðið getur einnig til dæmis nýst fjölmiðlafólki, aðilum í ferðaþjónustu og náttúrufræðikennurum í grunnskólum og menntaskólum sem vilja skerpa á smáatriðum og nýjustu áherslum og hugtakanotkun.

Með hverju námskeiðsgjaldi fylgir frítt sæti fyrir eitt ungmenni undir 18 ára aldri.

Aðrar upplýsingar

Kennslutímarnir eru mjög myndrænir. Mælt er með að þátttakendur séu með stílabók, penna og jafnvel nokkra liti, nema þátttakendur kjósi að glósa í tölvu. Gott er að taka með snjallsíma, spjaldtölvu eða tölvu þar sem létt spurningakeppni verður í lok hvers tíma. Til grundvallar er bókin: Earth: Portrait of a Planet, en bókin er mjög vegleg og ítarleg fyrir þau sem vilja kafa enn dýpra í fagið.

Nánar um kennara

Helga Kristín Torfadóttir er eldfjalla- og bergfræðingur. Hún er með BSc-gráðu í jarðfræði frá Háskóla Íslands, MSc-gráðu í eldfjalla- og bergfræði frá Háskóla Íslands og heldur áfram að sérhæfa sig á því sviði í doktorsnámi. Hún er einnig fagmenntaður leiðsögumaður og hefur að mestu leyti nýtt þau fræði sem jöklaleiðsögumaður. Hún hefur komið að jarðfræðikennslu við Menntaskólann í Reykjavík ásamt því að kenna m.a. eldfjallafræði, steindafræði og kortlagningu hjá Háskóla Íslands. Hún heldur úti Instagram aðgangnum @geology_with_helga þar sem hún sýnir frá ýmsum ævintýrum og fræðir um þá jarðfræði sem kemur þar við sögu.

Styrkur

Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.

Eldfjöll, jöklar og allt í iðrum jarðar

Verð
67900