Staðnámskeið

Hvernig má fyrirbyggja mistök í opinberum útboðum?

Vantar þig aðstoð við nýskráningu inn á Mínar síður? Horfðu á leiðbeiningarmyndbandið!

Þri. 1. okt. kl. 8:30 - 12:30

4 klst.

Dagmar Sigurðardóttir

Endurmenntun Háskóla Íslands

Peningur 38.900 kr.
Snemmskráning til og með 21. september. Almennt verð 42.800 kr.
Námskeið

Á námskeiðinu verður farið yfir helstu mistök sem verða við framkvæmd opinberra innkaupa og hvernig má koma í veg fyrir þau. Áhersla verður lögð á að skoða dæmi um mistök bæði opinberra aðila og einnig fyrirtækja eða ráðgjafa þeirra sem vinna að tilboðum. Dæmi eru um að fyrirtæki hafi orðið af stórum samningum vegna smávægilegra mistaka við tilboðsgerðina sem auðvelt hefði verið að koma í veg fyrir með því að fræða starfsfólk. Einnig hefur ríkið þurft að greiða háar fjárhæðir í bætur vegna mistaka við opinber útboð.

Með lagabreytingum undanfarinna ára eru afleiðingar þess að brjóta gegn lögum um opinber innkaup orðnar mun alvarlegri en áður. Dómsmálum vegna mistaka við framkvæmd opinberra innkaupa hefur einnig fjölgað. Nýleg dómaframkvæmd er athyglisverð og leggur línurnar um það sem koma skal. Sérstaklega verður fjallað um hlutverk kærunefndar útboðsmála í því ljósi.

Það er afskaplega mikilvægt að verkfræðingar og aðrir sérfræðingar sem koma að ráðgjöf í tengslum við opinber útboð þekki vel lög og reglu sem gilda og geri sér grein fyrir hvar hættur á mistökum liggja. Á námskeiðinu er ætlunin að sýna hvar hætta á mistökum er mest og hvernig má koma í veg fyrir þau.

Á námskeiðinu er fjallað um

  • Kynntar verða helstu lagareglur sem gilda um opinber innkaup. 
  • Fjallað verður um mistök við undirbúning útboðs, þ.m.t. við val á innkaupaferli og framkvæmd útboðs. Þar má nefna mistök við gerð útboðsgagna, svo sem við framsetningu hæfiskrafna, valforsendna og lágmarkskrafna.
  • Þá verður jafnframt fjallað um helstu mistök við mat og meðferð tilboða, m.a. í tengslum við heimild/skyldu kaupanda til að kalla eftir frekari gögnum frá bjóðendum ef tilboð er ófullkomið, heimild kaupanda til að leiðrétta villur í tilboði og heimild bjóðanda til að hafna öllum tilboðum. 
  • Jafnframt er fjallað um algeng mistök sem verða við tilkynningu um val á tilboði.
  • Síðast en ekki síst verður fjallað um mistök sem fyrirtæki eða ráðgjafar þeirra gera við tilboðsgerðina.

Ávinningur þinn

  • Meiri þekking og skilningur á þeim reglum sem um opinber útboð gilda og hvernig þeim er beitt í framkvæmd.
  • Meiri þekking og skilningur á afleiðingum af lögbrotum á sviði opinberra innkaupa. 
  • Betra yfirlit yfir það hvenær helstu mistök við framkvæmd útboða verða og hvernig er hægt að koma í veg fyrir þau.
  • Þekking á því hvernig unnt er að takmarka áhættu í opinberum innkaupum.
  • Þekking á því hvað fyrirtæki geta gert til að koma í veg fyrir mistök við tilboðsgerðina.

Fyrir hverja

Námskeiðið getur nýst verkfræðingum, innkaupastjórum og öðrum sérfræðingum sem koma að ráðgjöf í tengslum við opinber útboð, hvort heldur sem er fyrir kaupanda eða bjóðanda.

Nánar um kennara

Dagmar Sigurðardóttir er lögmaður og eigandi á lögfræðistofunni Lagastoð og veitir sérhæfða þjónustu á sviði opinberra innkaupa bæði til fyrirtækja og opinberra aðila. Hún var sviðsstjóri lögfræðisviðs Ríkiskaupa 2013-2020 og hefur því yfirgripsmikla reynslu af opinberum innkaupum, útboðum og samningagerð. 
Hún hefur einnig starfað sem sérfræðingur á sviði almannavarna í dómsmálaráðuneytinu og var lögmaður Landhelgisgæslunnar um 12 ára skeið. Dagmar hefur tekið þátt í erlendu samstarfi um opinber innkaup, setið í starfshópi á vegum fjármálaráðuneytis sem vann að frumvarpi núgildandi laga um opinber innkaup og hefur haldið erindi, námskeið og fræðslufundi um opinber innkaup bæði erlendis og hérlendis t.a.m. hjá Endurmenntun, Stofnun stjórnsýslufræða, Lögmannafélagi Íslands og á vegum Ríkiskaupa. 
Dagmar lauk cand juris prófi frá HÍ 1994 og meistaranámi í sjávarútvegsfræðum frá lagadeild HÍ 2005. Hún hlaut lögmannsréttindi árið 2000.

Styrkur

Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.

Hvernig má fyrirbyggja mistök í opinberum útboðum?

Verð
38900