

Valmynd
Árni Árnason
Langar þig að finna frelsið sem felst í því að skapa texta sem er fullkomið hugarfóstur þitt? Texta þar sem hugmyndir flæða og þenja út veruleikann sem þú hélst að þú lifðir í eða mála hann nýjum og spennandi litum. Texta sem verður til þegar þú kemst yfir hjallinn sem áður hélt aftur af sköpunargleðinni?
Hagnýtt, lifandi og skemmtilegt námskeið þar sem fjallað verður um helstu áskoranirnar sem fólk stendur frammi fyrir þegar lagt er upp í það ferðalag að búa til skapandi texta. Nemendur munu fá í hendur þekkingu og tól sem nýtast munu þeim við skapandi skrif í framtíðinni og auka þannig líkurnar á því að þeir komist á leiðarenda í eigin skrifum. Námskeiðið er að miklu leyti kennt í smiðjuformi, sem þýðir að nemendur munu spreyta sig á fjölbreyttum textaæfingum sem tengjast umfjöllunarefni hvers tíma. Þannig hvetjum við hvert annað til dáða og öðlumst praktíska reynslu af því að vinna með hluti eins og mismunandi frásagnaraðferðir, ólík stílbrögð og uppbyggingu texta.
Öll þau sem hafa áhuga á skapandi skrifum. Þau sem velt hafa því fyrir sér að setjast við skriftir en ekki talið sig hafa verkfærin til að hefjast handa, þau sem eru vön annars konar skrifum og vilja breiða út faðminn í átt að meiri sköpun og líka hin sem hafa reynt sig aðeins við skapandi skrif en langar að taka þau á næsta stig.
Best er að vera með fartölvu til að vinna á í tímum.
Árni Árnason er rithöfundur með MA-próf í ritlist frá Háskóla Íslands. Árni hefur á síðustu árum gefið út þrjár skáldsögur, bæði fyrir börn og fullorðna, og birt smásögur í nokkrum safnritum. Hann hefur jafnframt skrifað handrit að einni sjónvarpsþáttaseríu fyrir RÚV og séð um þáttaraðir fyrir útvarp. Árni hefur að auki víðtæka kennslureynslu af háskólastigi.