Leiðsögunám: Áfangastaðurinn Ísland - Örnám (H25)

Námið hefst 2. sept. 2025 og lýkur með útskrift í júní 2026.

Peningur 910.000 kr.
Umsóknarfrestur er til og með 15. maí 2025.
Námsbraut

Örnám í samstarfi við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Námið samsvarar 30 ECTS einingum. 

Leiðsögunámið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands er hannað til að veita nemendum yfirgripsmikla og faglega þjálfun í leiðsögn um Ísland.

Námið er skipulagt í samræmi við Evrópustaðalinn ÍST EN 15565:2008

Markmið

Markmið námsins er að útskrifa leiðsögumenn sem eru tilbúnir að takast á við áskoranir sem fylgja starfinu og hafa færni og þekkingu til að veita ferðamönnum örugga, fræðandi og skemmtilega upplifun af Íslandi. Það að leggja áherslu á gæði og fagmennsku í leiðsögunámi stuðlar að bættri ímynd Íslands sem áfangastaðar og tryggir að gestir landsins fái sem besta þjónustu.

Hæfniviðmið 

Þekking: 

Við lok náms býr nemandi yfir þekkingu á sviði ferðaleiðsagnar. Í því felst að nemandi:

  • hefur öðlast innsýn í helstu hugtök og kenningar í ferðamálafræði, náttúrufræði og samfélagsfræði sem nýtast í leiðsögn um Ísland.
  • þekkir til helstu staðreynda sem lýsa íslensku nútímasamfélagi, sögu, menningu og náttúrufari sem nýtast í leiðsögn um Ísland.
  • kann skil á viðurkenndum aðferðum til öflunar gagna og heimilda sem nýtast í leiðsögn um Ísland.
  • hefur  innsýn í helstu kenningar og aðferðir sem nýtast til árangursríkrar leiðsagnar.
  • skilur inntak og mikilvægi sjálfbærni í ferðaþjónustu, þar með talið áhrif ferðamennsku á samfélag, umhverfi og efnahagslíf. 

Leikni: 

Við lok náms getur nemandi beitt aðferðum og verklagi ferðaleiðsagnar. Í því felst að nemandi: 

  • geti skipulagt ferðir af ólíkum toga og beitt til þess aðferðum tímastjórnunar og viðeigandi tækni, með hliðsjón af grunnstoðum sjálfbærni.
  • geti hannað heildstæða ferðaupplifun þar sem saga, menning og náttúrufar eru sett fram í samfelldri og áhugaverðri frásögn.
  • geti beitt aðferðum umhverfistúlkunar til að miðla upplýsingum til ferðamanna.
  • geti túlkað upplýsingar um íslenskt nútímasamfélag, sögu, menningu og náttúrufar fyrir ferðamenn.
  • geti beitt viðurkenndum aðferðum ferðaleiðsagnar til að stjórna fjölbreyttum hópum ferðamanna og til að mæta ólíkum þörfum þeirra.
  • geti beitt viðurkenndum aðferðum og verklagi til að bregðast við neyðaraðstæðum sem upp kunna að koma í ferðum. 

Hæfni: 

Við lok náms í ferðaleiðsögn getur nemandi hagnýtt þekkingu sína og leikni í starfi og frekara námi. Í því felst að nemandi: 

  • hafi þróað með sér hæfni til að dýpka þekkingu sína á helstu hugtökum og kenningum í ferðamálafræði, náttúrufræði og samfélagsfræði í frekara námi.
  • hafi öðlast hæfni til að þróa og viðhalda þekkingu sinni á staðreyndum sem lýsa íslensku nútímasamfélagi, sögu, menningu og náttúrufari.
  • geti sýnt frumkvæði og sjálfstæði við ákvarðanatöku um skipulag, hönnun og framkvæmd ferða.
  • hafi þróað með sér hæfni til faglegra samskipta og samvinnu við framkvæmd ferða. 

Kennslufyrirkomulag

Námið í heild er hægt að taka á tveimur misserum en þau sem vilja geta tekið það á lengri tíma. Alla jafna er eitt námskeið kennt í einu og því lýkur með prófi og/ eða verkefni áður en næsta námskeið hefst.  

Námið er skipulagt sem blanda af fjar- og staðnámi. Upptökur af öllum fyrirlestrum eru aðgengilegar á kennslusvæði námsins. Skyldumæting er í ákveðnar vinnustofur í flestum námskeiðum sem fara ýmist fram í kennslustofu eða á rafrænu formi. Einnig eru vettvangsferðir hluti af náminu.  

Námsmat

Námsmat byggist á verkefnum, pistlagerð, jafningjamati, rafrænum könnunum og prófum. 

Þau sem vilja útskrifast með staðfesta færni á erlendu tungumáli, þreyta munnlegt inntökupróf sem staðfestir lágmarksfærni á viðkomandi tungumáli og í framhaldinu þrjú munnleg próf á námstímanum. Færni er metin í samstarfi við Tungumálamiðstöð HÍ og stuðst er við Evrópska tungumálarammann (CEFR). Færniviðmið er á bilinu B2-C1 við lokamat. Greitt er sérstaklega fyrir tungumálapróf. Hægt er að þreyta munnlegt inntökupróf á fleiri en einu tungumáli.

Fagráð

Í fagráði leiðsögunáms eru:
Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ
Edda R. H. Waage, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ
Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ

Fagráðsfundi sitja einnig:
Jóna Svandís Þorvaldsdóttir, verkefnastjóri Endurmenntunar HÍ
Jóhanna Rútsdóttir, námsstjóri Endurmenntunar HÍ

Fyrir hverja

Námið hentar öllum þeim sem vilja búa sig undir starf leiðsögumanns á Íslandi. Einnig getur námið verið kjörið fyrir þá sem vilja kynnast betur landi og þjóð og því er í boði að sækja stök námskeið eða námið að hluta án námsmats. 

Umsókn

Inntökuskilyrði í fullt leiðsögunám er íslenskt stúdentspróf eða sambærilegt próf  
Umsækjendur þurfa að hafa færni í íslensku sem samsvarar að lágmarki B2 skv. evrópska tungumálarammanum. Færni í íslensku telst staðfest með íslensku stúdentsprófi eða sambærilegu námi á þriðja hæfniþrepi samkvæmt hæfniramma um íslenska menntun.  

Umsækjendum sem ekki geta staðfest færni sína í íslensku á ofangreindan máta verður boðið upp á stöðumat sem fram fer í júní og framkvæmt er af viðurkenndum prófunaraðila fyrir Endurmenntun HÍ.  

Ef umsækjandi hyggst þreyta munnleg próf í erlendu tungumáli er viðkomandi beðinn um að skrá tungumál í athugasemdir umsóknar. Ef umsækjandi hefur nú þegar staðfesta færni á bilinu B2-C1 skv. Evrópska tungumálarammanum er viðkomandi beðinn um að láta þá staðfestingu fylgja umsókninni. Gjald fyrir stöðumat á erlendu tungumáli skv. evrópska tungumálarammanum er ekki innifalið í námsgjöldum.

Greiðslufyrirkomulag

Hægt er að semja um greiðslufyrirkomulag áður en nám hefst. Nánari upplýsingar um greiðslufyrirkomulag má sjá hér.

Aðrar upplýsingar

Nánari upplýsingar um námið má finna í námsvísi (PDF) 

Örnám

Leiðsögunámið er örnám sem er staflanlegt upp í BS gráðu í ferðamálafræði við Háskóla Íslands sem er 180 ECTS einingar. Það þýðir að nemendur sem taka námið hjá EHÍ geta nýtt námskeið þess sem hluta af BS gráðu í ferðamálafræði. Nemendur sem taka BS gráðu í ferðamálafræði geta nýtt námskeið sem hluta af örnámspakka.

Tvær mögulegar útfærslur eru á staflanleika örnámsins innan BS gráðunnar:

  1. Öll námskeið örnámsins eru tekin hjá EHÍ (30 ECTS) og er allt örnámið metið upp í 180 ECTS BS gráðu í ferðamálafræði við HÍ. 14 ECTS einingar eru metnar á móti skyldunámskeiðunum LAN107G Náttúra Íslands (8 ECTS) og FER209G Áfangastaðurinn Ísland (6 ECTS). 16 ECTS einingar sem eru metnar sem valnámskeið.
  2. Tvö námskeið eru tekin sem hluti af BS námi í ferðamálafræði við HÍ, LAN107G Náttúra Íslands (8 ECTS) og FER209G Áfangastaðurinn Ísland (6 ECTS). Önnur námskeið örnámsins eru tekin hjá EHÍ (16 ECTS) og eru metin sem valnámskeið upp í 180 ECTS BS gráðu í ferðamálafræði við HÍ.

Styrkur

Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.

Leiðsögunám: Áfangastaðurinn Ísland - Örnám (H25)

Verð
910000