Ökukennaranám til almennra réttinda (H25)

Námið hefst 27. ágúst 2025 og lýkur með útskrift í júní 2026

Peningur 2.150.000 kr.
Umsóknarfrestur er til og með 15. maí 2025.
Námsbraut

Í samstarfi við Samgöngustofu og Menntavísindasvið HÍ

Námið samsvarar 30 ECTS einingum.

Ökukennaranám er starfsmenntun sem miðar að því að búa nemendur undir að starfa sem ökukennarar en getur einnig nýst vel við margvísleg önnur störf á sviði umferðarmála. 

Markmið

Námið miðar að því að nemendur öðlist þekkingu og þjálfun til að geta skipulagt, undirbúið og annast ökukennslu, með tilliti til hæfni, getu og þarfa ökunemenda sinna. Áhersla er lögð á að nemendur öðlist staðgóða þekkingu á sviði kennslufræða og umferðarmála og færni í að beita og miðla henni. Fagleg þekking á sviði umferðarfræða og þekking og færni á sviði kennslu og þjálfunar verður því ætíð að fara saman. Nemendur munu geta lýst og útskýrt hvað felst í öruggum akstri. Þeir munu jafnframt geta skipulagt og útfært færniþjálfun um leið og þeir geta gert öðrum grein fyrir nauðsyn þess að ökukennarinn sjálfur sé góð fyrirmynd og rækti ábyrgðartilfinningu og ábyrg viðhorf í starfi.

Kennslufyrirkomulag

Kennsla skiptist í bóklega og verklega kennslu. Bókleg kennsla fer fram með verkefnamiðuðum hætti. Námið er skipulagt á formi fjarnáms með staðlotum. Kennsluaðferðir eru fjölbreyttar og námið fer að miklu leyti fram í gegnum verkefnavinnu. Kennsluáætlun og dagskrá fyrir hvert námskeið liggur fyrir við upphaf náms. Verkleg kennsla er stór hluti námsins og skiptist í vettvangsnám, áhorf og æfingakennslu. Krafist er 80% viðveru í staðlotum og 100% viðveru í verklegum hluta námsins sem fer ekki fram í staðlotum. Gott er að nemendur hafi í huga við skipulag á námi að viðmið um vinnuframlag nemanda eru 25-30 klst. á einingu.

 

Staðlotur skólaárið 2025-26 verða:
27. - 30. ágúst 2025
8. - 11. október 2025
19. - 22. nóvember 2025
14. - 17. janúar 2026
4. - 7. mars 2026
15. - 18. apríl 2026

Námsmat

Kennari á hverju námskeiði fyrir sig annast námsmat og útfærir það út frá viðfangsefni og þörfum. Fyrirkomulag námsmats skal liggja fyrir við upphaf náms. Nemandi þarf að uppfylla kröfur um mætingu í staðlotur og ljúka öllum bóklegum námskeiðum með lágmarkseinkunn 7 til að fá að skila lokaverkefnum í umferðarfræði, kennslufræði og sálfræði. Í lokaverkefnum þarf nemandi að fá að lágmarki einkunnina 7. Nemandi skal jafnframt uppfylla kröfur um 100% mætingu og verkefnaskil í verklegum hluta námsins.

Fagráð

Hróbjartur Árnason, lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. 
Ingunn Óladóttir ökukennari. 
Jóhanna Rútsdóttir, náms- og þróunarstjóri hjá EHÍ. 
Jóna Svandís Þorvaldsóttir, verkefnastjóri hjá EHÍ.  
Sigurlína Freysteinsdóttir frá Samgöngustofu.  
Þuríður B. Ægisdóttir, formaður Ökukennarafélags Íslands.

Fyrir hverja

Ökukennaranám til almennra réttinda er ætlað þeim sem vilja afla sér þekkingar og hæfni til að sækja um starfsleyfi sem ökukennari til almennra réttinda (B-réttinda)  

Inntökuskilyrði í námið er stúdentspróf eða sambærileg menntun – a.m.k. af þrepi 3 í hæfniramma um íslenska menntun.

Umsækjendur þurfa að hafa færni í íslensku sem samsvarar að lágmarki B2 skv. evrópska tungumálarammanum. Færni í íslensku telst staðfest með íslensku stúdentsprófi eða sambærilegu námi á þriðja hæfniþrepi samkvæmt hæfniramma um íslenska menntun.

Umsækjendum sem ekki geta staðfest færni sína í íslensku á ofangreindan máta verður boðið upp á stöðumat sem fram fer í júní og framkvæmt er af viðurkenndum prófunaraðila fyrir Endurmenntun HÍ. 

Umsókn

Með umsókn þarf að fylgja:

  • Stúdentsprófsskírteini eða staðfesting á sambærilegu námi.
  • Greinargerð þar sem umsækjandi tilgreinir ástæður fyrir námsvali, eiginleika sína sem geta nýst í starfinu og væntingar til námsins, hámark 1 bls.
  • Mælt er með að skila inn ferilskrá og/eða meðmælum sem geta talist umsækjanda til framdráttar við meðferð umsóknar.
     

Greiðslufyrirkomulag

Hægt er að semja um greiðslufyrirkomulag áður en nám hefst. Nánari upplýsingar um greiðslufyrirkomulag má sjá hér.

Aðrar upplýsingar

Nánari upplýsingar um námið má finna í námsvísi (PDF)

Styrkur

Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.

Ökukennaranám til almennra réttinda (H25)

Verð
2150000