

Valmynd
Námið hefst 20. jan. 2025 og lýkur með útskrift í okt. 2026
PMTO meðferðarnám er samstarfsverkefni Endurmenntunar Háskóla Íslands og Miðstöðvar PMTO-FORELDRAFÆRNI á Íslandi. Námið samsvarar 60 ECTS einingum á meistarastigi.
Hvað er PMTO meðferð?
Parent Management Training–Oregon–aðferð (PMTO) er meðferðarúrræði fyrir foreldra til að meðhöndla hegðunarerfiðleika barna. Það er þróað af Dr. Gerald Patterson og samstarfsfélögum hans á rannsóknarstofnuninni Oregon Social Learning Center (OSLC) í Eugene í Oregon í Bandaríkjunum.
Úrræðið er byggt á víðtækum rannsóknum á mismunandi hópum og tilheyrir hópi gagnreyndra meðferðarúrræða (EBPs; Evidence-based Programs). Það felur í sér að úrræðinu fylgir ítarleg handbók, nákvæm lýsing á hópi notenda og sýnt hefur verið fram á árangur í slembivalsrannsóknum með mælingum til eftirfylgdar, þar á meðal rannsóknum sem aðrir framkvæma en þeir sem þróuðu meðferðina.
PMTO-nálgun hentar bæði til meðferðar og í forvarnaskyni, í einstaklings- eða hópmeðferð. PMTO er að einhverju leyti fyrirmynd ýmissa annarra úrræða á sviði foreldrafærniþjálfunar. Í dag hafa höfundar gefið aðferðinni heitið “GenerationPMTO” og það því oft notað í birtum greinum. Evrópulönd, sem innleiða aðferðina, hafa hins vegar haldið í PMTO sökum hefðar.
Frekari upplýsingar um PMTO:
https://generationpmto.org/
https://www.oslc.org/
https://www.nubu.no/PMTO/
https://www.piresearch.nl/producten/pmto/professionals
https://pmto.dk/til-professionelle-og-ledere/historien/
Ábyrgð PMTO á Íslandi
Árið 2000 hófst innleiðing úrræðisins hér á landi undir forystu Miðstöðvar PMTO-FORELDRAFÆRNI, sem þá var staðsett hjá Skólaskrifstofu Hafnarfjarðarbæjar.
Megin hlutverk Miðstöðvarinnar hefur ávallt verið að sjá um útbreiðslu aðferðarinnar, sinna miðlægum stuðningi fyrir fagfólk á þeim svæðum landsins sem innleiða PMTO og hafa eftirlit með fylgni við aðferðina.
Á árunum 2013 til 2020 var Miðstöðin hjá Barnaverndarstofu (BVS), en frá árinu 2020 stóð Reykjavíkurborg að eigin miðstöð, en BVS og síðar Barna- og fjölskyldustofa sá um innleiðingu utan borgarinnar.
Frá ársbyrjun 2024 fékk Velferðarsvið Reykjavíkurborgar síðan það hlutverk að standa vörð um starfsemi Miðstöðvar PMTO-FORELDRAFÆRNI fyrir allt landið með stuðningi frá mennta- og barnamálaráðuneytinu og samningi við Háskóla Íslands og Hafnarfjarðarbæ.
Nemendur í PMTO meðferðarnámi sækja vinnustofur og vinna þess á milli með fjölskyldur undir handleiðslu, bæði í hópi og með einstaklingum.
Meðferðarviðtölin eru tekin upp á myndbönd og handleiðsla er veitt. Hver nemandi þarf að lágmarki að vinna með fjórar fjölskyldur (tvær æfingafjölskyldur og tvær prófafjölskyldur), einn foreldrahóp, auk smærri æfingaverkefna. Meðferðarnáminu lýkur með viðurkenndu prófi af bandarískum sérfræðingum aðferðinnar; Implementation Science International, Inc.
Námið veitir viðkomandi réttindi til að stunda PMTO einstaklingsmeðferð og hópmeðferð.
Lengd náms
Námið fer fram á tæplega tveggja ára tímabili og felst í fjölskylduvinnu, verkefnum og lestri fagefnis, 18 námskeiðsdögum í sex vinnustofum og handleiðslu sem er veitt reglulega yfir allt tímabilið.
Vinnustofur
Í vinnustofum er farið yfir alla þætti meðferðar og þeir æfðir. Einnig er farið yfir kenningarfræðilegan bakgrunn úrræðisins og rannsóknir. Nemendur fá þjálfun í klínískri færni og ná þannig ákveðinni leikni í að beita aðferðinni og aðstoða foreldra að ná fram jákvæðum breytingum og bættri aðlögun barnsins. Þættir eins og hlutverkaleikir, stuðningur, spurningatækni og notkun lausnaleitar eru áhersluþættir.
Kennarar eru allir með framhaldsgráðu á háskólastigi auk þess að vera PMTO meðferðaraðilar og hafa fengið þjálfun í kennslu á aðferðarinni. Kennsla fer fram á íslensku en einnig koma erlendir kennarar mögulega að verkinu. Í hverri kennslustund sinna tveir kennarar kennslunni. Kennarar fá ávallt stuðning og handleiðslu á vegum miðstöðvar. Hluti af vinnustofunum fer fram í gegnum fjarfundabúnað.
Vinnustofur fara fram á eftirfarandi tímum:
20. - 22. janúar 2025 kl. 9:00 - 16:00
18. - 20. mars 2025 kl. 9:00 - 16:00
20. - 22. maí 2025 kl. 9:00 - 16:00
1. - 3. september 2025 kl. 9:00 - 16:00
4. - 6. nóvember 2025 kl. 9:00 - 16:00
12. - 14. janúar 2026 kl. 9:00 - 16:00
Birt með fyrirvara um breytingar.
Handleiðsla
Handleiðsla fer fram jafnt og þétt yfir allan námstímann, þ.e. frá janúar 2025 til september 2026.
Nemendum er skipt í handleiðsluhópa sem hittast að jafnaði tvisvar í mánuði og hefur hver hópur sinn handleiðara. Einkahandleiðsla fer fram hjá mismunandi handleiðurum.
Handleiðarar eru PMTO meðferðaraðilar og hafa fengið þjálfun í handleiðslutækni aðferðarinnar. Handleiðarar fá ávallt stuðning og handleiðslu á vegum miðstöðvar. Vegna sérfræðiréttinda hafa sálfræðingar kost á að sækja handleiðslu hjá sálfræðingi með sérfræðiréttindi í klínískri barnasálfræði eða uppeldissálfræði sem er mikilvæg forsenda þegar sótt er um sérfræðiréttindi. Hægt er að sækja um að taka handleiðslu að hluta eða öllu leiti á sínum vinnustað. Allar nánari upplýsingar um handleiðslu veitir kennslustjóri námsins, Edda Vikar Guðmundsdóttir hjá Miðstöð PMTO - FORELDRAFÆRNI á Íslandi.
Kostnaður við handleiðslu er ekki innifalinn í verði námsins og kemur einungis til ef nemi hefur ekki aðgang að PMTO handleiðara í því sveitarfélagi/stofnun sem viðkomandi starfar hjá. Umsjón handleiðslu er alfarið hjá Miðstöð um PMTO – FORELDRAFÆRNI.
Nemendur í PMTO meðferðarnámi sækja vinnustofur og vinna þess á milli með fjölskyldur og foreldrahópa undir handleiðslu. Handleiðslan fer fram bæði í hópi og einstaklingslega. Meðferðarviðtöl og hópmeðferðartímar eru teknir upp á myndbönd og handleiðsla veitt. Hver þátttakandi þarf að lágmarki að vinna með fjórar fjölskyldur (tvær æfingafjölskyldur og tvær prófafjölskyldur) og einn foreldrahóp, auk smærri æfingaverkefna. Meðferðarnámi lýkur með viðurkenndu prófi af bandarískum sérfræðingum aðferðarinnar; Implementation Science International, Inc. Námið veitir útskrifuðum réttindi til að stunda PMTO einstaklings- og hópmeðferð.
Edda Vikar Guðmundsdóttir
Arndís Þorsteindóttir
Margrét Sigmarsdóttir
Jóhanna Rútsdóttir, námsstjóri Endurmenntunar HÍ.
Ingibjörg Systa Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Endurmenntun HÍ.
Kennslustjóri er Edda Vikar Guðmundsdóttir
Nánari upplýsingar um námið gefa Edda Vikar, edda.vikar.gudmundsdottir@reykjavik.is og Arndís, arndis.thorsteinsdottir@reykjavik.is.
Um er að ræða klínískt nám, ætlað fagfólki sem sinnir meðferð fyrir foreldra barna með aðlögunarvanda, einkum hegðunarerfiðleika. Námið er ítarlegt og nemendur öðlast leikni í að beita PMTO meðferð og aðstoða foreldra að takast á við hindranir til að ná fram jákvæðum breytingum og betri aðlögun barnsins.
Kröfur eru gerðar um að nemendur hafi lokið eða stundi framhaldsnám á háskólastigi á sviði sálfræði, félagsráðgjafar eða á öðrum sviðum ráðgjafar við fjölskyldur.
Í framhaldi af útskrift verður meðferðaraðili hluti af PMTO teymi, tengdu tilteknu svæði á landinu. Með þeim hætti er unnið að markvissri nýtingu aðferðarinnar með skipulögðum hætti í samráði við miðstöð.
Vert er að kanna hvort sveitarfélag/stofnun veiti styrk fyrir námið.
Með umsókn þarf að skila: Ferilskrá, prófskírteini og staðfesting frá vinnuveitanda um starf sem býður upp á aðstæður fyrir fjölskyldráðgjöf og meðferð. Senda skal fylgigögn á netfangið endurmenntun@hi.is og tiltaka “PMTO meðferðarnám” í fyrirsögn.
Arndís Þorsteinsdóttir er sálfræðingur og starfar hjá Keðjunni á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Hún lauk sálfræðinámi frá Háskólanum í Bergen árið 1988 og hlaut sérfræðiviðurkenningu í klínískri barnasálfræði árið 2000. Arndís hefur leitt PMTO starf Reykjavíkurborgar til fjölda ára og vinnur auk þess hjá Miðstöð PMTO á landsvísu.
Edda Vikar Guðmundsdóttir er sálfræðingur og starfa fyrir Miðstöð PMTO hjá Keðjunni á velferðasviði Reykjavíkurborgar. Hún lauk sálfræðinámi frá CUNY University og Háskóla Íslands og hlaut sérfræðiviðurkenningu í uppeldissálfræði árið 2018. Edda hefur starfað hjá Miðstöð PMTO til fjölda ára.
Margrét Sigmarsdóttir er prófessor í sálfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk kennaraprófi árið 1987, embættisprófi í sálfræði árið 1996 og Ph.D. gráðu á sviði klínískrar sálfræði barna frá Háskólanum í Kaupmannahöfn árið 2013. Hún hlaut sérfræðiviðurkenningu í klínískri uppeldissálfræði árið 2007 og aðra í klínískri barnasálfræði árið 2016. Margrét er frumkvöðull PMTO á Íslandi og hefur unnið með aðalstöðvum PMTO í Oregon árum saman.
Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.