Fréttir

Nemendur hittast á ný

Nemendur hittast á ný

Það var glatt á hjalla hjá nemendahópum í Jákvæðri sálfræði og Fjölskyldumeðferð þegar við hittum á þá í kynningum lokaverkefna á dögunum. Síðan samkomubannið var sett á þann 12. mars höfðu hóparnir stundað nám sitt í gegnum fjarnám en eftir að afléttingar á banninu hófust 4. maí máttu nemendur loksins koma saman aftur í skólastofum Endurmenntunar og urðu þá miklir fagnaðarfundir. Þrátt fyrir óvenjulegar aðstæður á vormisserinu mátti ekki greina að samkomubannið hefði komið niður á náminu og metnaður nemenda leyndi sér ekki. Verkefnin voru fjölbreytt og áhugaverð en í Fjölskyldumeðferðinni var meðal annars fjallað um uppeldisaðstæður og fjölskyldumynstur Hómers Simpson sem flestir landsmenn kannast við. Vakti verkefnið mikla lukku og spruttu fram umræður um að setja á fót námskeið út frá verkefninu enda Simpson fjölskyldan mörgum ástkær og gaman að fræðast meira um hana. Mikil spenna var í loftinu hjá nemendum enda útskrift á næsta leyti en þann 12. júní næstkomandi verða 179 nemendur úr 7 námsbrautum útskrifaðir frá Endurmenntun HÍ. Hóparnir litu björtum til sumarsins og hlökkuðu til að fagna áfanganum saman eftir krefjandi mánuði vorsins.

0