Fréttir

Kennari í nærmynd: Dóra Guðrún Guðmundsdóttir

Hvaða námskeið kennir þú? Jákvæða sálfræði. Ég er kennslustjóri diplómanáms í jákvæðri sálfræði.

Hvað er langt síðan þú byrjaðir að kenna hjá EHÍ? Ég kenndi fyrst árið 2001 en hef kennt í diplómanáminu í jákvæðri sálfræði síðan 2014.

Lýstu námskeiðinu þínu með þremur lýsingarorðum?Námið snýst um það sem gerir lífið þess virði að lifa því í þremur lýsingarorðum gæti það verið: Þroskandi, gefandi og gleðjandi.

Leyndur hæfileiki sem þú býrð yfir? Að leika Silvíu Nótt. Það kom víst samstarfsfólki mínu hjá Embætti landlæknis til margra ára á óvart þegar ég tók að mér að leika og syngja „Til hamingju Ísland" með Silvíu Nótt í skemmtiatriði á árshátíðinni hjá okkur um daginn.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Það kom margt til greina, eins og t.d. söngkona ,flugstjóri og prestur. Eftir stúdentspróf fór ég í klaustur í nokkra mánuði í Frakklandi í smá sjálfskoðun. Ég man að mig langaði að prófa að vera um tíma frá fjölskyldu, vinum, síma og sjónvarpi (þetta var sko fyrir tíma netsins og farsíma) því mig langaði að kynnast sjálfri mér enn betur, læra frönsku og finna hvað mig langaði að gera við líf mitt. Ég fann að mig langaði til að leggja mig fram um að njóta lífsins og finna leiðir til að hjálpa öðrum til að njóta lífsins.

0