Katrín Sverrisdóttir

Ásta Rún Valgerðardóttir

Peningur kr.
Námskeið

Viltu styrkjast og fá fleiri verkfæri til að styðja við unglinga og ungmenni í helstu áskorunum daglegs lífs? Á námskeiðinu er fjallað um áskoranir unglinga og ungmenna í daglegu lífi og leiðir til að mæta þeim með verkfærum úr hugrænni atferlismeðferð (HAM). Áhersla er lögð á nokkrar hagnýtar aðferðir sálfræðinnar sem þátttakendur geta nýtt í sínu starfi.

Námskeiðið byggist á hugmyndafræði HAM sem er áhrifarík meðferð við ýmsum geðrænum vanda. Meðferðin byggist á þeirri kenningu að hugsanir, tilfinningar og hegðun séu þættir sem tengjast og hafa áhrif hver á annan. Áhersla er lögð á hagnýt verkfæri til að rjúfa vítahringi sem geta myndast í hugsun og hegðun. Jafnframt verður skoðað hvernig hægt er að auka tilfinningaþol og ná þannig betri tökum á lífinu.
Verkfæri verða kynnt til sögunnar, í formi fræðslu sem og með verklegum æfingum. Þátttakendur öðlast reynslu af verkfærum til að geta nýtt á markvissan hátt í krefjandi áskorunum í sínu starfi með unglingum og ungmennum. Byggt verður á einstaklings- og hópvinnu á staðnum.

Á námskeiðinu er fjallað um

  • HAM líkanið - hugsanir, hegðun, tilfinningar, líkamleg einkenni.
  • Hugsanir - hugsanaskrá með endurmati, hugsanaskekkjur, festu- og vaxtarhugarfar.
  • Hegðun - vítahringir, jafnvægi og að setja mörk.
  • Tilfinningar og viðbrögð við þeim.
  • Kortlagningu styrkleika og bjargráð til að auka seiglu og tilfinningaþol einstaklinga.
  • Þakklætisæfingar og jákvæð styrkleikadagbók.
  • Samkennd í eigin garð.

Ávinningur þinn

  • Tækifæri til að kynnast grunnþáttum hugrænnar atferlismeðferðar (HAM).
  • Að læra að endurmeta óhjálplegar hugsanir og þekkja helstu hugsanaskekkjur.
  • Að kynnast aðferðum til að þekkja eigin mörk ásamt því að geta betur sett öðrum mörk til að styðja við jafnvægi í daglegu lífi.
  • Að öðlast verkfæri til að draga fram styrkleika.
  • Aukin sjálfsþekking og bjargráð.

Fyrir hverja

Ætlað þeim sem starfa með unglingum og ungmennum eins og t.d. kennurum á unglinga- og framhaldsstigi, skólahjúkrunarfræðingum, náms- og starfsráðgjöfum og starfsfólki félagsmiðstöðva.

Aðrar upplýsingar

Fyrir áhugasama verður bent á greinar og ítarefni.

Nánar um kennara

Katrín Sverrisdóttir er klínískur sálfræðingur með sérhæfingu í hugrænni atferlismeðferð (HAM) og díalektískri atferlismeðferð (DAM). Katrín er með reynslu af námskeiðshaldi og námskeiðsgerð fyrir Landspítalann, Háskóla Íslands, Heilsugæsluna sem og á stofu. Hún hefur áður haldið námskeið á vegum EHÍ um þunglyndi ungmenna og viðbrögð varðandi sjálfsvígshættu.

Ásta Rún Valgerðardóttir er klínískur sálfræðingur með diplóma í lýðheilsuvísindum. Hún hefur starfað á Landspítalanum, á stofu og í Háskóla Íslands ásamt því að hafa haldið námskeið fyrir Heilsugæsluna. Undanfarin 3 ár hefur hún verið skólasálfræðingur við Verzlunarskóla Íslands.

Verð