Staðnámskeið

Lagasmíðar og pródúsering

Aðeins 5 sæti laus

Vantar þig aðstoð við nýskráningu inn á Mínar síður? Horfðu á leiðbeiningarmyndbandið!

Mið. 18. sept. - 23. nóv. kl. 19:15 - 21:15 (11x). ATH. kennt er þriðjudagana 29. okt. og 12. nóv. kl. 19:15-21:15 í stað miðvikudaga þær vikur. Lagasmíðadagur er laugardaginn 23. nóv. kl. 9-15, staðsetning verður tilkynnt síðar. Vikuna 25. - 29. nóv. eru upptökur í stúdíói og er þeim tímum úthlutað af kennara.

28 klst.

Hildur Kristín Stefánsdóttir

Jelena Ciric

Jóhannes Ágúst Sigurjónsson

Endurmenntun Háskóla Íslands

Peningur 189.900 kr.
Námskeið

Lagasmíðar og pródúsering er námskeið fyrir alla aðila sem eru áhugasamir um að búa til tónlist – hvort sem þeir hafa einhvern grunn í tónlist eða ekki. Á Íslandi er gríðarlega sterk tónlistarmenning og í dag getur í rauninni hver sem er búið til tónlist. Fyrir sumum eru lagasmíðar skapandi áhugamál en fyrir öðrum eru þær leið til tjáningar. Með grunnskilningi á lagasmíðum, þjálfun í textagerð og innsýn í helstu forrit sem hægt er að nýta til að taka upp og búa til tónlist geta lagasmíðar þó orðið markvissari.

Á námskeiðinu öðlast þátttakendur þekkingu á lagasmíðum og innsýn í lagasmíðar starfandi tónlistarmanna. Farið er yfir uppbyggingu lags og texta, leiðir til að ýta undir sköpun og einnig þjálfa þátttakendur upp leikni með því að glíma við verkefni. Auk þess verður farið yfir helstu forrit og búnað sem tengjast lagasmíðum og þátttakendur læra á einfaldan hátt grunnatriði í tengslum við upptökur og pródúseringu.

Á námskeiðstímanum er farið einn dag í lagasmíðabúðir (á höfuðborgarsvæðinu) þar sem þátttakendur semja lag í samvinnu við aðra.

Sjá nánari dagskrá hér.

Á námskeiðinu er fjallað um

  • Uppbyggingu lags og samspil einstaka kafla þess.
  • Ýmis hugtök sem tengjast lagasmíðum, texta- og ljóðagerð, upptökum og pródúseringu.
  • Mismunandi aðferðir sem nota má við lagasmíðar, einn eða með öðrum.
  • Textagerð, innblástur og aðferðir.
  • Heimastúdíóið og forrit til lagasmíða.
  • Helstu ráð í tónlistarbransanum og leiðir til að koma tónlist á framfæri.

Ávinningur þinn

  • Aukin þekking á lagasmíðum.
  • Aukinn skilningur og aukin leikni í textagerð.
  • Betri yfirsýn yfir ýmis forrit sem tengjast lagasmíðum.
  • Aukinn skilningur á helstu leiðum til að koma afurð sinni á framfæri.
  • Aukið sjálfstraust til að geta haldið áfram sköpun sinni.

Fyrir hverja

Námskeiðið er fyrir alla þá sem hafa áhuga á lagasmíðum og textasmíðum, hvort sem þeir spila á hljóðfæri eða ekki því ekki er gerð krafa um neina fyrri tónlistarkunnáttu þó hún nýtist auðvitað þeim sem hana hafa. Einnig gæti það hentað þeim sem vilja fá innsýn í heim raftónlistar- og upptökuforrita sem geta nýst tónlistarfólki við lagasmíðar. Góð byrjun út í áframhaldandi lagasmíðar.

Nánar um kennara

Hildur Kristín Stefánsdóttir (Hildur) er lagahöfundur, pródúser, tónlistarkona og kennari úr Reykjavík. Hún hefur verið virk í íslensku tónlistarsenunni frá árinu 2007 þegar hún stofnaði hljómsveitina Rökkurró. Síðan þá hefur hún unnið við sólóverkefni sitt en hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir popplag ársins 2017 en það var lagið „I’ll Walk With You“. Hún hefur átt þrjú lög í úrslitum Söngvakeppninnar og er nú, ásamt Cell7, í danstónlistarverkefninu RED RIOT. Hildur hefur unnið mikið erlendis frá árinu 2017 sem lagahöfundur og pródúser með fjölmörgum listamönnnum á Norðurlöndunum, í Bretlandi og í Bandaríkjunum.  

Hildur hefur kennt lagasmíðar í MÍT deild FÍH, í grunnskólum og einnig verið með námskeið fyrir fullorðna á eigin vegum og í Skýinu - skapandi skóla. Hún hóf að læra sellóleik 6 ára gömul en færði sig svo yfir í klassískan söng við 16 ára aldur, en stoppaði stutt við þar enda átti tónlistarsköpun hug hennar allan. Hildur er með BA-gráðu í japönsku frá Háskóla Íslands. 

Jelena Ciric er tónlistarkona, söngvaskáld og kórstjóri. Árið 2021 hlaut plata hennar „Shelters one“ Íslensku tónlistarverðlaunin sem plata ársins í flokki þjóðlagatónlistar, auk þess sem Jelena var tilnefnd sem söngkona ársins. Árið 2023 fékk lagið hennar, Rome, tvær tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna. Frá árinu 2018 hefur hún stjórnað kórnum Kliði, sem flytur aðeins frumsamin verk eftir meðlimi kórsins. 

Jelena hefur yfir 15 ára reynslu af tónlistarkennslu en hún vann til dæmis sem deildarstjóri söngdeildar í Veracruz háskóla í Mexíkó árin 2014-2016. Hún er með BA-gráðu í klassískum söng frá University of Toronto og mastersgráðu frá Berklee College of Music. Jelena vinnur ekki aðeins við tónlist og lagatextasmíði heldur alls konar textagerð, þ.á m. þýðingar, blaðamennsku og pistlagerð. 

Jóhannes Ágúst Sigurjónsson útskrifaðist árið 2019 með BA-gráðu í tónlist úr Linnéuniversitet í Svíþjóð með sérhæfingu í lagaskrifum og pródúseringu. Hann starfaði m.a. sem Head of Audio hjá tónlistarforritinu Overtune og starfar nú sem pródúser og lagahöfundur. Hann hefur haldið fjölmörg námskeið í pródúseringu og lagasmíðum, m.a. hjá Reykjavíkurborg, Akureyrarbæ, Tjarnarskóla, ýmsum félagsmiðstöðvum og Skýinu - skapandi skóla.  

Jóhannes hefur mikla reynslu af hljóðupptökum og pródúseringu og þekkingu og reynslu af öllum helstu forritum, búnaði og tækni í pródúseringu og upptökum. Auk þess er hann með skírteini sem Certified Pro á Logic Pro frá Apple. 

Styrkur

Átt þú rétt á styrk frá þínu stéttarfélagi eða Vinnumálastofnun til að sækja námskeið eða nám?
Kannaðu málið HÉR.

Lagasmíðar og pródúsering

Verð
189900