null
Fréttir

„Við þurfum að kunna að hlusta á okkur“

Sigrún Sigurðardóttir, prófessor við Háskólann á Akureyri, hefur í fimm ár kennt á námskeiðum um áföll og áfallamiðaða nálgun hjá Endurmenntun HÍ. Lengst af voru námskeiðin fyrir fagfólk en þau hafa síðustu misseri einnig verið sniðin fyrir almenning og starfsfólk á vinnustöðum.

Við byrjuðum á að spyrja Sigrúnu hvort henni finnist að fólk sé almennt farið að vera meðvitaðra um áföll og áhrif þeirra, jafnvel út lífið. „Já ég tel það. Það er aukin umræða, fleiri námskeið í boði fyrir almenning auk kennslu á háskólastigi. Ég verð vör við það að það þykir ekki stórmál að ég vinni við það að fræða fólk um áföll, ólíkt því eins og það var þegar ég var að byrja að kenna það fyrir um það bil 14 árum.“ Hún segist samt ekki vera viss um að öll sú þekking hafi náð að skila sér inn í öll kerfin; hvað áföll geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsufar, svo sem líkamleg einkenni. 

Kemur flestum á óvart að áföll liggja í djúpt taugakerfinu

Sigrún telur að það komi flestum sem missi heilsuna og byrji áfallavinnu á óvart að vinnan og einkennin séu ekki bara sálræn og tilfinningatengd, heldur að áföllin séu í taugakerfinu og fólk þurfi oft að vinna mjög djúpt með líkamann eins og sálina til að vinna úr áföllum. „Einnig kemur það fólki á óvart að þetta getur tekið mjög langan tíma og að einkennin geta komið fram í öllum kerfum líkamans. Sem og áföll sem fólk hefur upplifað snemma á lífsleiðinni, jafnvel í móðurkviði og að áföll erfast. Stundum þarf að fara alla leið langt aftur til að vinna með áföllin og afleiðingarnar.“ 


Áföll geta erfst á milli kynslóða

Nýjustu rannsóknir í áfallafræðum sýna að áföll geta erfst á milli kynslóða en Sigrún segist ekki vera viss hversu algengt það sé. „Það eru ekki til íslenskar rannsóknir um það. Þegar áföll erfast spilar allt saman, svo sem erfðir, uppeldi og aðstæður. Það er aldrei hægt að segja að eitthvað eitt sé ástæðan þar sem svo margt spilar saman og hefur áhrif hvert á annað.“ 


Umræða og þekking skipta miklu máli

Fjöldi fólks hefur þegar notið kennslu Sigrúnar um áföll og hún telur það vera mikilvæg skref í að auka umræðuna, viðbrögð og forvarnir, til dæmis á vinnustöðum. „Það er mikilvægt svo að fólk upplifi ekki endurtekin áföll, jafnvel aftur og aftur. Umræðan og þekkingin getur haft þau áhrif að einstaklingur fer ekki eins mikið í veikindaleyfi, skilningur á líðan eykst og auðveldara getur verið að mæta einstaklingi þar sem hann er staddur. Með því að skoða hvað kom fyrir einstaklinginn, rót vandans, í stað þess að horfa bara á hvað sé að. Það er betur hægt að bregðast rétt við bæta alla þjónustu.“  


Áfallavinna er langhlaup

Aðspurð segir Sigrún að mjög margar leiðir til bata og hjálpar séu til og einnig misjafnar. Miklu máli skiptir að byrja smátt. „Ekki ætla sér að fara í áfallavinnu og drífa sig í því heldur að líta á það sem langhlaup, fara rólega af stað og hlusta á hjartað og innsæið. Hvert og eitt verður að finna sína leið á sínum hraða og við erum sérfræðingar í okkur sjálfum og vitum oft innst inni hvað það er sem við þurfum að gera. Við þurfum bara að kunna að hlusta á okkur, okkar innri rödd. Það er ekkert "one size fits all" í þessum málum. Það sem hentar einum þarf ekki að henta öðrum og einnig mjög mikilvægt að finna meðferðaraðila sem við tengjum við og finna traustið.“ 


Stór hluti langvinnra veikinda vegna áfalla og streitu


Að endingu telur Sigrún að þekkingarleysi og fordómar gagnvart áföllum og úrvinnslu geti haft áhrif á hvort sumt fólk leiti sér aðstoðar. „Við erum líka svo vön að þegja, þrauka og þola, frá fyrri kynslóðum - sérstaklega karlmenn - og það þarf að breyta því. Fordómar eru oft innra með okkur og við þurfum að byrja á okkur sjálfum. Mikilvægt er að átta okkur á að stór hluti langvinnra veikinda eru vegna áfalla og streitu, eins og áfengis- og fíknivandi. Það er einnig mikilvægt að muna að við þurfum að næra okkur áður en við nærum aðra.“ 

Allar nánari upplýsingar um námskeiðin má finna hér:
Sálræn áföll - áfallamiðuð nálgun og þjónusta
Áfall í starfi - fyrir fagfólk
Áfall - hvað svo? - áhrif á heilsufar og líðan og leiðir til bata

Verð