null
Fréttir

Námslínu í jákvæðri sálfræði lokið

Fyrstu námslínunni í jákvæðri sálfræði hjá Endurmenntun lauk í dag og var haldin lítil hátíðarstund fyrir nemendur í tilefni dagsins. Línan bar heiti Jákvæð sálfræði, jákvæð heilsa og jákvæð inngrip og var ætluð sérstaklega fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sem hefur haft umsjón með diplómanámi Endurmenntunar í jákvæðri sálfræði síðan 2014, kom og heilsaði upp á nemendurna og sagði frá reynslu sinni af náminu og hvernig það hefur vaxið í vinsældum með hverju ári. Nemendur námslínunnar geta átt kost á að fá hana metna inn í diplómanámið ef þeir hafa áhuga á að stíga skrefið og bæta enn frekar við sig og virtust margir áhugasamir um að taka námið lengra. Námslínan skiptist niður á fimm heila kennsludaga sem dreifðust jafnt yfir haustmisserið en einstakt úrval sérfræðinga sá um kennsluna: dr. Ilona Boniwell, prófessor við University of East London, dr. Lisa Vivoll Straume, stofnandi og framkvæmdastjóri Mind í Noregi, Anna Dóra Frostadóttir, sálfræðingur, Bóas Valdórsson, sálfræðingur, dr. Edda Björk Þórðardóttir, sálfræðingur, dr. Erla Björnsdóttir, sálfræðingur, dr. Lára Sigurðardóttir, læknir og Svala Sigurðardóttir, læknir. Við óskum nemendum dagsins innilega til hamingju og þökkum þeim fyrir að koma með okkur í þessa skemmtilegu frumraun.

Á vormisseri er aftur á dagskrá námslína með svipuðu fyrirkomulagi en að þessu sinni er hún sniðin að stjórnendum og sérfræðingum á mannauðssviði. Lögð verður áhersla á að skoða forystuhlutverkið í víðu samhengi, allt frá því að taka forystu í eigin lífi til forystuhlutverks í vinnu og á öðrum sviðum samfélagsins. Einnig verður skoðað hvernig hægt er að hagnýta jákvæða sálfræði á vinnustöðum. Hægt er að kynna sér allt um námslínuna hér.

Verð