null
Fréttir

Mikilvægt að taka upplýsta ákvörðun

Lilja Lind Pálsdóttir, viðskipta- og hagfræðingur, kennir á námskeiðinu Á tímamótum - fjármál við starfslok hjá Endurmenntun HÍ, bæði fyrir og eftir áramót. Við ræddum við hana um þessi tímamót sem bíða okkar langflestra og hvers vegna mikilvægt er að kynna sér þau.

„Það kom fljótt í ljós þegar ég byrjaði að starfa við lífeyrismál að áhugi minn kviknaði á að fræða fólk um þetta mikilvæga málefni sem varðar okkur öll. Það er algjör synd hversu fá kynna sér þessi mál, en um leið og fólk stígur inn á vinnumarkaðinn fer það að greiða í lífeyrissjóð.“

Lilja byrjar á að nefna að með aukinni þekkingu fáum við betri yfirsýn og auðveldara verði að aðlaga okkur að breyttu lífsmynstri. Eins sé mikilvægt að taka upplýsta ákvörðun á þessum tímamótum. „Þess vegna er nauðsynlegt að setjast niður og skoða hverjar breytingarnar verða við starfslok. Kerfið gerir okkur þetta ekki auðveldara fyrir, því það er síbreytilegt og í mörg horn að líta.  Ég mæli eindregið með því að hvert og eitt gefi sér tíma til að kynna sér sín lífeyrismál vel við starfslok.“

 

Hægt að fara á lífeyri við 60 ára aldur

Spurð um á hvaða aldri sé tilvalið að kynna sér þessi mál í fyrsta lagi svarar Lilja því til að aldur sé bara tala og í dag gefist mörgum kostur á sveigjanlegum starfslokum. „Hægt er að fara á lífeyri við 60 ára aldur. Það er aldrei of snemmt að byrja að skoða málin, því fyrr því betra. Við 50 ára aldur er gott að taka smá „snúning“ og skoða hvernig fjármálin munu líta út eftir 10 ár, 15 ár og svo framvegis. Með því að skoða væntanlegar breytingar munum við fá betri yfirsýn yfir stöðu mála. Gott er að fylgjast vel með og vera inn í helstu reglum og valkostum sem tengjast t.d. úttekt lífeyris, greiðslum og skerðingum frá Tryggingastofnun, skattaupplýsingum og öðrum tengdum málum.“

 

Lilja bætir við að lífeyrissjóðirnir séu jafn misjafnir eins og þeir eru margir og það sama eigi við um okkur fólkið. „Alltof algengt er að fólk haldi að það sem er best fyrir vinnufélagann eða jafnvel makann sé eitthvað sem að eigi líka við um viðkomandi. Hvert og eitt okkar þarf að setjast niður og skoða eigin forsendur. Oftar en ekki gerir fólk þau mistök að alhæfa um lífeyrismál án þess að kynna sér þau nánar.“

 

Nýjar og spennandi áskoranir

Starfslok eru stór tímamót hjá hverju og einu okkar og Lilja bendir á að við starfslok geti einnig skapast fjölmörg tækifæri til að takast á við nýjar og spennandi áskoranir sem lífið bjóði upp á. „Fólki gefst þá oft tækifæri til að eyða meiri tíma með fjölskyldu og vinum og sinna sínum áhugamálum.“

Nánari upplýsingar og skráning á námskeiðin Á tímamótum - fjármál við starfslok eru hér.

Verð