null
Fréttir

Menningarríkt haustmisseri

Laugardaginn 20. ágúst verður Menningarnótt haldin hátíðleg en hún hefur skipað fastan sess í Reykjavík síðan árið 1996. Menningarnótt er afmælishátíð Reykjavíkurborgar en þann 18. ágúst 1786 fékk borgin kaupstaðarréttindi. Dagskrá Menningarnætur er yfirleitt stútfull af hvers kyns listaviðburðum og sýnir á lifandi hátt hversu frábært og ríkt menningarlíf við eigum hér á Íslandi.

Það er því er ekki úr vegi í tilefni laugardagsins að fjalla um menningarnámskeiðin sem eru á dagskrá hjá okkur í haust. Eru þau öll undir handleiðslu frábærra kennara sem margir hafa auðgað menningarlíf Íslands í fjölmörg ár. Ásdís Egilsdóttir, íslenskufræðingur og prófessor emerita, verður með námskeiðið Fornar ástir – lystaukanámskeið um Íslendingasögur. Halldór Guðmundsson, rithöfundur og bókmenntafræðingur, tekur fyrir hina frægu Sölku Völku – níræð og síung. Gísli Jökull Gíslason, rannsóknarlögreglumaður, gaf út bókina Örlagaskipið Arctic fyrr á árinu og heldur námskeið um það merka skip í október. Illugi Jökulsson, rithöfundur, heldur námskeið um Forseta Bandaríkjanna – þá bestu og verstu. Sverrir Jakobsson, prófessor í miðaldasögu við HÍ, tekur að sér Íslendingasögunámskeið misserisins og fjallar um hina einu sönnu Sturlunga sögu. Grégory Cattaneo, miðaldasagnfræðingur og rithöfundur, verður með tvö ný og spennandi námskeið: Goðsagnir og leyndardómar - Ghoubbet í Afríku og Kukulkan í Mexíkó og Óþekkt svæði Frakklands - Bretagne og Dordogne. Kristín Svava Tómasdóttir, sagnfræðingur og ljóðskáld, verður svo með glænýtt námskeið, Farsótt – saga smitsjúkdóma og sóttvarna á Íslandi, sem er einkar viðeigandi núna þegar við höfum öll fengið að upplifa það að ganga í gegnum farsóttartíma.

Er þetta einungis brotabrot af úrvali menningarnámskeiða á haustmisseri en einnig verður hægt að kynnast framandi menningarheimum eins og á námskeiðinu Indversk menning og samfélag I sem unnið er í samstarfi við mála- og menningardeild við hugvísindasvið HÍ. Á þessu ári eru liðin 75 ár frá því að Indland varð sjálfstætt ríki og verður Háskóli Íslands með opinn fyrirlestur á morgunn, 19. ágúst þar sem Meenakshi Lekhi, varautanríkisráðherra Indlands, heldur erindi.

Hægt að er skoða öll menningarnámskeið haustsins HÉR.

Verð