null
Fréttir

Brautskráning kandídata 11. júní 2021

Brautskráning EHÍ júní 2021

Brautskráning kandídata frá Endurmenntun var haldin hátíðleg föstudaginn 11. júní í stóra sal Háskólabíós og að þessu sinni voru útskrifaðir 128 nemendur frá fjórum námsbrautum; Hugrænni atferlisfræði í lífi og starfi, Námi til löggildingar skipa- og fasteignasala, Sálgæslu – diplómanám á háskólastigi og Sérnámi í hugrænni atferlismeðferð. Í salnum að þessu sinni voru einungis kandídatar í sætum en vinir og ættingjar fylgdust með athöfninni heiman frá í gegnum streymi. Bjartey Sveinsdóttir úr hljómsveitinni Ylju spilaði svo ljúfa tóna fyrir salinn.

Aukin lífsgæði með námi

Kristín J. Njarðvík, endurmenntunarstjóri og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, fluttu ávörp fyrir nemendur og talaði Kristín um hversu mikið lífsgæði geta batnað með auknu námi enda fylgja því aukin tækifæri á lífsleiðinni. Einnig minntist hún á að í gegnum árin hefur hún séð sömu nemendurna koma aftur og aftur í mismunandi nám hjá Endurmenntun og það væri gleðiefni að stofnuninn gæti boðið upp á svo eftirsóttar leiðir í námi að fólk endurtæki leikinn oftar en einu sinni og jafnvel oftar en tvisvar. Jón Atli sendi kandídötum góða kveðju og sagði að sjaldan væri eins gaman að útskrifa og núna í sumar þegar samfélagið væri að opnast á ný eftir takmarkanir undanfarinnar missera. Eftirvænting og bjartsýni fyrir framtíðinni ríkti í lofti og kandídatar voru spenntir að komast út í sumarið á vit nýrra ævintýra.

Tengslanetið eitt það mikilvægasta

Hulda Dóra Styrmisdóttir, verkefnastjóri á mannauðssviði Landspítala, hélt hátíðarræðu en hún útskrifaðist úr Sálgæslu árið 2019 og hefur einnig kennt í náminu. Ræða Huldu var persónuleg og minnti hún okkur öll á að hlúa að okkur og muna þetta erfiða ár sem hefur einkennst af heimsfaraldrinum. Það væri engum greiði gerður að reyna að gleyma þessum tímum sem hafa haft mikil og óræð áhrif á samfélagið allt og um leið allan heiminn. Hulda talaði sérstaklega um starfsfólk í framlínu heilbrigðiskerfisins og hversu mikið álag það hefur verið að sinna þeim störfum. Mikilvægt væri að styðja við þennan hóp og að mikið hugrekki þyrfti til að standa vaktina.

Fyrir hönd nemenda hélt Elvar Guðjónsson skemmtilega ræðu þar sem hann fór yfir menntaferilinn sinn en hann er einn af fáum aðilum sem hefur nælt sér í tvær löggildingar fasteigna- og skipasölu.  Elvar gaf samnemendum sínum og hinum kandídötunum góð ráð fyrir lífið og sagði jafnframt að tengslanetið sem fólk byggir er upp í náminu getur verið eitt það dýrmætasta sem situr eftir þegar námi lýkur og raunveruleikinn tekur við.  

Þakkir

Við óskum útskriftarnemendum okkar innilega til hamingju með áfangann og þökkum fyrir samleiðina undanfarin misseri. Hægt er að sjá fleiri myndir frá brautskráningunni á Facebook síðu Endurmenntunar hér.

Verð