null
Fréttir

Blóm gera allt fallegra - viðtal við Emilíu Borgþórsdóttur

Emilía Borgþórsdóttir iðnhönnuður hefur um nokkurt skeið kennt skemmtileg námskeið hjá Endurmenntun um ýmis atriði tengd heimilinu, hvort sem það er að gera stofuna að notalegum griðastað eða hvernig hægt er að stilla upp útisvæðinu þannig að hægt sé að nýta það allan ársins hring. Covid setti ekki strik í reikninginn hjá Emilíu heldur þvert á móti enda hefur sjaldan verið meiri áhugi fyrir endurbótum á heimilinu.

Það er nóg að gera hjá Emilíu Borgþórsdóttur en utan þess að kenna námskeið hjá Endurmenntun er hún sjálfstætt starfandi iðnhönnuður og innanhúsráðgjafi fyrir heimili og fyrirtæki. Að auki er hún menntaður sjúkraþjálfari og spilar það stórt hlutverk í starfi hennar þar sem hún ráðleggur fólki hvernig best er að haga vinnuaðstöðunni sinni, hvort sem það er á skrifstofunni eða heima í fjarvinnu. En hvernig lítur hefðbundinn dagur út hjá Emilíu? „Daginn byrja ég yfirleitt kl. 6 í Crossfit sem hefur verið ómissandi þáttur þar sem ég vinn mikið ein og byrjunin á deginum slær tóninn. Annars er ég með stúdíó heima þar sem ég vinn langmest við tölvuna, teikna og tek fundi í gegnum Zoom og síma. Oft fer ég á flakk vegna vinnunnar en ég reyni að safna útréttingum saman til að spara tíma auk þess sem það er hagstæðara fyrir umhverfið að vera ekki alltaf að skjótast á stutta fundi út um allt. Reyndar er ég núna komin í fullt nám við HÍ í umhverfis- og auðlindafræði og er svo heppin að námið raðast á þrjá daga.“ Þegar Covid-19 skall á vorið 2020 flykktust margir á atvinnumarkaðnum heim í fjarvinnu og þurftu að búa til skrifstofupláss inni á heimilinu. En í raun gilda svipaðar reglur sama hvar fólk gerir sér vinnuaðstöðu og aðalmálið er að sitja ekki of lengi við. „Góð lýsing skiptir öllu, góður skjár sem og góður stóll. Sem menntaður sjúkraþjálfari þá vil ég taka fram að næsta staða er besta staðan sem þýðir að við eigum að vera dugleg að skipta um stöðu og standa upp. Blóm gleðja og þá lifandi blóm, ferskt loft skiptir líka miklu máli og að geta stjórnað birtuskilyrðum ef unnið er við glugga.“

Ný námskeið í takt við breytta tíma

Eitt vinsælasta námskeið Emilíu sem dregur alltaf að fjölda þátttakenda er Heimili og hönnun þar sem farið er í grunnatriði hönnunar innan heimilisins eins og uppröðun húsgagna og litaskema. Í haust verða einnig á dagskrá Eldhúsið – hjarta heimilisins og Grænn lífstíll – okkar framlag skiptir máli sem er glænýtt námskeið ætlað þeim sem vilja minnka kolefnisspor sitt og feta sig í átt að vistvænni hegðun. Þar verða gefin góð ráð um hvernig er best að nota minna, endurnýta og endurvinna sem er þula sem við ættum öll að geta tileinkað okkur. Eftir áramót verða svo á dagskrá Stofan á heimilinu og Aðkoman og útisvæðið sem er frábært námskeið fyrir þá sem vilja hressa upp á útisvæðið hjá sér með vorinu. Eins og flestir vita gerði Covid það að verkum að fólk hélt sig meira heima við og í staðinn fyrir að ferðast um fékk það að kynnast heimilinu upp á nýtt: „Covid kom með aðra sýn og þarfir á heimilið, til dæmis eru málningarverslanir búnar að vera í brjálaðri vertíð. Covid gaf fólki færi á að kjarna sig betur og takast á við það sem uppá vantaði á heimilinu og eitthvað sem það hefur kannski verið lengi með á listanum en aldrei verið heima til að framkvæma.“

Covid gaf fólki færi á að kjarna sig betur og takast á við það sem uppá vantaði á heimilinu og eitthvað sem það hefur kannski verið lengi með á listanum en aldrei verið heima til að framkvæma.

En hvernig hafði ástandið áhrif á starf Emilíu sjálfrar? „Starfið mitt breyttist ekki mikið þar sem ég vinn mikið ein heima en fundunum fækkaði og þeir færðust á netið. Friðurinn varð hins vegar ekki sá sami þar sem maðurinn minn deildi með mér rýminu og ég fattaði hvað mér þykir gott að geta verið alveg út af fyrir mig. Það er eitthvað sem ég hélt að ég mæti ekki svona mikils.“

Mikilvægt að gera heimilið að sínu

Líkt og í tískuheiminum koma sífellt nýjar bylgjur og stefnur í innanhúshönnun og af nógu er að taka þegar litið er til komandi tíma: „Mildir jarðtónar eru búnir að vera vinsælir og halda áfram inn í haustið en með svolitlu af sterkum hreinum grunnlitum með í litlu magni. Húsgögn með mjúkum línum og góðum radíus sem eru svolítið eins og skúlptúr verða áberandi. Náttúruefni eru það heitasta eins og skinn sem og vegan leður. Blóm eru áfram tískuvara sem gleður mig óendanlega þar sem þau hafa svo jákvæð áhrif á okkur og gera allt fallegra. Það er meira um nytjahluti og skrautmuni og þá stórum keramik skúlpturum og hlutum sem láta mikið fyrir sér fara. Þetta er ef til vill afleiðing af Covid. Við erum meira heima og þurfum að umkringja okkur með einhverju mjúku sem kemur á móti frekar kuldalegu viðmóti tækja og tóla.“ Emilía bætir við að góð kaffivél sé gulls ígildi og ætti að vera til á hverju heimili en að lokum hvetur hún fólk til að láta nýjustu tísku ekki ráða ferðinni: „Heimilið á að endurspegla þá sem þar búa, þjóna íbúum heimilisins en ekki að eltast við tískustrauma þó það sé gaman að fylgjast aðeins með.“

Verð