null
Fréttir

Góðir vinnufélagar og styðjandi stjórnendur eru gulls ígildi

Þóra Þorgeirsdóttir, doktor í mannauðsstjórnun og lektor við Háskólann í Reykjavík, kennir á vinsælu námskeiði hjá Endurmenntun HÍ sem ber heitið Vellíðan starfsfólks. Við spurðum hana út í efni námskeiðsins og ástæður fyrir mikilvægi vellíðunar á vinnustað.

„Vinna er mjög stór partur af lífi flestra og það hvernig okkur líður í vinnunni hefur mikil áhrif á líðan okkar í lífinu almennt. Þegar okkur líður vel þá hlökkum við til að koma í vinnuna, við njótum hennar og við sinnum verkefnum okkar betur,“ segir Þóra. Fjölmargir þættir geti þó haft áhrif á hvernig okkur líður.

„Sem dæmi hefur starfið sjálft mikil áhrif eins og það hvort verkefnin eru spennandi og hvort við upplifum tilgang og merkingu í því sem við erum að gera. Álag hefur áhrif og langvarandi álag er engum gott.“ Næg úrræði þurfi að vera fyrir starfsfólk til að takast á við slíkt. Sömuleiðis hafi sambönd og samskipti við annað fólk, það sem er stundum kallað félagslegi þátturinn, stór áhrif á hvernig okkur líður. „Góðir vinnufélagar og styðjandi stjórnendur eru gulls ígildi.“

 

Kulnun oft vegna vanlíðunar í starfi

Spurð hvort algengt sé að vinnuveitendur gleymi að huga að þessum þætti í rekstri svarar Þóra því til að vaxandi meðvitund sé í samfélaginu á mikilvægi þess að huga að líðan starfsfólks og að það skiptir máli hvernig fólki líður. Ekki einungis hvort það sé ánægt í starfi eða ekki. „Fólkið sem við missum út af vinnumarkaði í veikindaleyfi, sérstaklega tengt kulnun, er oftar en ekki fólk sem leið ekki vel í vinnunni. Það er því margvíslegur ávinningur fyrir vinnuveitendur að huga að þessum þáttum.“

 

Þá leggur Þóra áherslu á að starfsfólk þurfi sjálft að vera meðvitað um hvað hefur áhrif á líðan þess í vinnunni. „Ef manni líður illa, hvers vegna er það og hvað get ég gert í því? Vantar mig stuðning? Finnst mér verkefnin mín erfið? Er álagið of mikið? Vantar mig úrræði? Næ ég ekki að tengjast fólki? Eða er heimilislífið að íþyngja mér í vinnunni líka? Það er svo margt og misjafnt sem hefur áhrif á hvern og einn og með því að læra um hvað hefur áhrif á vellíðan er hægt að rýna í hvar maður stendur sjálfur og skoða hvað þyrfti að breytast.“

Mikilvægt að setja sjálf okkar mörk

Við spurðum Þóru að lokum hvernig staðan sé á aðskilnaði vinnu og einkalífs hjá Íslendingum á tímum eins og núna, þar sem sífellt er hægt að ná í fólk með ýmsum leiðum.

„Mörg fyrirtæki og stofnanir vinna markvisst með að setja mörk þegar kemur að þessum þáttum og virða einkalíf starfsfólks eins og mögulegt er. Það er líka mikilvægt að við sjálf setjum okkur eigin mörk, ef við viljum halda skýrum mörkum milli einkalífs og vinnu þá berum við líka ábyrgð á að tryggja það. Gott er að byrja á að ræða við vinnuveitendur okkar en svo er líka öllum hollt að slökkva stundum bara á símanum og tölvunni og kúpla sig alveg út.“

Skráning hér: Vellíðan starfsfólks (endurmenntun.is)

Verð