Fréttir

Líf og fjör bak við tjöldin

Líf og fjör bak við tjöldin

Síðastliðinn mánuð hefur mikið gengið á bak við tjöldin hjá Endurmenntun og hefur starfsfólk lagt allt kapp á að haustmisserið gangi sem best fyrir sig þrátt fyrir breytilegar aðstæður í samfélaginu. Í upphafi misserisins var mikill umgangur á Dunhaganum þegar þátttakendur streymdu á námskeið og í tíma en það breyttist snögglega þegar reglur um fjöldatakmarkanir og fjarlægðarmörk hertust nýlega. Þökk sé liðlegheitum kennara og jákvæðu viðmóti þátttakenda hafa tilfærslur í dagskrá misserisins gengið framar vonum og í sameiningu höfum við öll séð til þess að þó svo að húsið sé tómlegt þá er líf og fjör í fjarnámskeiðum og fjarkennslu námsbrautanna.

Það er einnig gaman að segja frá því að skráningar á námskeið hafa sjaldan verið fleiri en nú í haust og framboð okkar á fjarnámskeiðum hefur vakið mikla lukku þátttakenda víða um landið sem lengi hafa beðið eftir að geta tekið þátt í frábæru dagskránni okkar. Það verður því sérlega skemmtilegt verkefni að þróa áfram fjölbreytt fjarnámskeið næstu misserin og tryggja að okkar sérhæfða miðlun fræðslu og færni berist í alla króka og kima landsins. Við hvetjum áhugasama að fylgjast með á heimasíðunni þar sem dagskrá námskeiða er uppfærð reglulega og hægt er að sjá allar upplýsingar um viðbrögð Endurmenntunar við breytingum á sóttvarnarreglum á sérstakri upplýsingarsíðu HÉR.

0