Fréttir

Hlaut viðurkenningu í kjölfar námskeiðs

Hlaut viðurkenningu í kjölfar námskeiðs

Sigurbjörn Skarphéðinsson hefur í gegnum árin sótt ýmis námskeið hjá Endurmenntun tengd starfi sínu og fyrir mörgum árum sótti hann jafnframt námskeið í ritlist. Sigurbjörn vinnur talsvert með texta í starfi sínu en hefur alltaf haft gaman af því að skrifa sögur og yrkja vísur.

Hlaut viðurkenningu fyrir smásögu

Fyrir tæpu ári ákvað hann að skella sér á námskeið hjá okkur um skáldleg skrif með Kristjáni Hreinsyni og var aldeilis ánægður með þá ákvörðun. „Námskeiðið var verulega fróðlegt, gefandi og árangursríkt. Ég lærði ákveðna tækni til að stytta texta en það getur oft á tíðum verið afar krefjandi en þegar upp er staðið eykur það oftast gæði hans“, segir Sigurbjörn.

Stuttu síðar ákvað Sigurbjörn að taka þátt í smásagnakeppni. „Ég þakka námskeiðinu að ég fékk viðurkenningu fyrir söguna mína en án þess hefði ég ekki skorið niður textann“, segir Sigurbjörn glaður í bragði.

Fleiri námskeið

Eins og fyrr segir þá yrkir Sigurbjörn einnig mikið vísur og þá gjarnan í tengslum við afmæli, fermingar eða brúðkaup.  Hann fór því einnig á námskeið með Kristjáni Hreinssyni um söngtextagerð og vill gjarnan sækja enn fleiri ritlistarnámskeið hjá Endurmenntun. Hann hefur alltaf verið ánægður með námskeiðin sem hann hefur sótt og þykir gott að koma á Dunhagann.

Aðspurður hvort hann hyggist gefa eitthvað að verkum sínum út þá segir hann að svo gæti farið en föðuramma hans hafi byrjað að gefa út bækur þegar hún var 70 ára og það væri því enn nokkur tími til stefnu.

0